24. ágú. 2011

Sala nemakorta Strætó hafin

Nemar í framhalds- og háskólum á höfuðborgarsvæðinu með lögheimili í Garðabæ geta keypt nemakort í strætó sem kosta 20 þús. kr. fyrir veturinn
  • Séð yfir Garðabæ

Námsmenn í framhaldsskólum og háskólum á höfuðborgarsvæðinu, með lögheimili í sveitarfélagi sem á aðild að Strætó bs., þ.m.t. Garðabæ, geta nú keypt nemakort hjá Strætó fyrir nýhafið skólaár. Kortið veitir aðgang að almenningsvögnum Strætó á gjaldsvæði 1.

Hægt er að panta nemakort á vefsvæði Strætó, https://www.straeto.is/kortasida . Nafn námsmanns og kennitala er skráð á kortið auk ljósmyndar og er viðkomandi námsmanni einum heimil notkun þess. Strætó áskilur sér allt að sjö virka daga til að framleiða og afhenda nemakort. Rétt er að taka fram að greiðslukvittun gildir ekki sem fargjald í strætisvagna á meðan beðið er eftir korti.

Erlendum námsmönnum sem hafa hug á að panta nemakort er bent á að hafa samband við þjónustuver Strætó í síma 540-2700 ef þeir geta ekki skráð sig í gegnum vefsvæði Strætó.

Einungis er hægt að greiða fyrir nemakort á vefsvæði Strætó með kreditkorti. Þeir sem vilja staðgreiða nemakort geta það á Hlemmi milli klukkan 11:00 og 16:00 alla virka daga til 15. september næstkomandi. Ef þörf verður á verður afgreiðslutíminn framlengdur.

Haustannarkort 2011 gilda til 31. desember næstkomandi. Kort fyrir allan námsveturinn 2011-2012 gilda til 31. maí 2012.

Verð á nemakorti fyrir námsveturinn 2011-2012 er 20.000 krónur. Nemakort sem gildir eina önn kostar 11.000 krónur.