19. ágú. 2011

Vegna yfirvofandi verkfalls

Félag leikskólakennara (FL) hefur boðað til verkfalls nk. mánudag náist ekki samningar í kjaradeilu félagsins við Samband íslenskra sveitarfélaga sem fer með samningsumboð fyrir sveitarfélög landsins í málinu. Á þessari stundu er óvíst að samningar takist fyrir mánudaginn og mun því boðað verkfall koma til framkvæmda nk. mánudag.
  • Séð yfir Garðabæ

Tilkynning til forráðamanna barna á leikskólum Garðabæjar

Félag leikskólakennara (FL) hefur boðað til verkfalls nk. mánudag náist ekki samningar í kjaradeilu félagsins við Samband íslenskra sveitarfélaga sem fer með samningsumboð fyrir sveitarfélög landsins í málinu.

 

Á þessari stundu er óvíst að samningar takist fyrir mánudaginn og mun því boðað verkfall koma til framkvæmda nk. mánudag.

 

Garðabær mun virða verkfallsrétt félagsins komi til verkfalls og fara að tilmælum þess um starfsemi leikskóla í verkfalli.  Í tilmælum FL kemur fram að deildir leikskóla þar sem deildarstjóri er félagsmaður í FL eigi að vera lokaðar meðan á verkfalli stendur.

 

Allar deildir leikskóla Garðabæjar nema ein deild á Sunnuhvoli, þar sem deildarstjóri er ekki félagsmaður í FL, verða lokaðar komi til verkfalls. 

 

Ágreiningur er milli FL og sveitarfélaganna um rétt sveitarfélaga til að hafa deildir opnar með þeim starfsmönnum sem ekki fara í verkfall og þá undir stjórn leikskólastjóra og aðstoðarleiksólastjóra.  Ágreiningsefnið mun verða borið undir Félagsdóm sem dæmir í málum sem rísa í vinnudeilum og eru dómar hans endanlegir.

 

Ríkissáttasemjari hefur boðað deiluaðila til fundar og reynt verður til þrautar um helgina að ná samkomulagi svo ekki þurfi að koma til verkfalls sem mun hafa í för með sér mikla röskun fyrir fjölskyldur og atvinnulíf í landinu.

 

Forráðamenn barna í leikskólum er hvattir til að fylgjast vel með fréttum af samningaviðræðum og tilkynningum á heimasíðu Garðabæjar og viðkomandi leikskóla um þróun mála.