21. júl. 2011

Sunnuhvoll flaggar grænfána

Sá merkisviðburður átti sér stað fyrr í sumar að leikskólinn Sunnuhvoll fékk samþykki Landverndar til að flagga grænfána.
  • Séð yfir Garðabæ

Sá merkisviðburður átti sér stað fyrr í sumar að leikskólinn Sunnuhvoll fékk samþykki Landverndar til að flagga grænfána.

Skemmtilegt og krefjandi verkefni

Mikil vinna var lögð að baki áður en grænfáninn var dreginn að húni þar sem farið var í gegnum alla verkferla skólans með umhverfisvernd að leiðarljósi. Þátttakendur í verkefninu eru börnin, starfsmenn og valinn hópur foreldra.

Helga Kristjánsdóttir, leikskólastjóri á Sunnuhvoli segir að verkefnið hafi verkið krefjandi en skemmtilegt. "Verkið var ekki hrist fram úr erminni eins og sagt er og þetta er heldur ekki verkefni sem settur er punktur aftan við þegar búið er að flagga. Þetta er eilífðarverkefni sem við erum að takast á við og við erum strax farin að huga að spennandi verkefnum fyrir næsta vetur. Til að viðhalda fánanum þurfum við að sýna fram á að við séum í stöðugri þróun."

Góður dagur með góðum gestum

Helga bætir því við að dagurinn þegar samþykki Landverndar var í höfn hafi verið hátíðisdagur á leikskólanum. "Þennan sama dag var foreldrafélagið með uppákomu fyrir börnin og mættu bæði foreldrar systkini, afar og ömmur til að taka þátt í gleðinni með okkur. Að venju var grillað á fína Weber grillinu okkar sem við höfðum safnað okkur fyrir. Veðrið lék við okkur þennan dag og allir fóru glaðir heim að honum loknum."

Fleiri myndir frá deginum eru á vef Sunnuhvols.

Frá leikskólanum Sunnuhvoli

Fáninn dreginn að húni í fyrsta sinn.

Frá leikskólanum Sunnuhvoli

Fáninn dreginn að húni í fyrsta sinn.