Snyrtilegt umhverfi 2011
Eigendur fjögurra einbýlishúsalóða fengu í gær afhenta viðurkenningu fyrir snyrtilegt umhverfi 2011. Eigendur samliggjandi lóða fjölbýlishúsa við Strikið 2-12 fengu einnig viðurkenningu fyrir sérlega vel hirta lóð. Náttúrufræðistofnun Íslands fékk viðurkenningu í flokki fyrirtækja og stofnana og Kjarrás var valin snyrtilegasta gata bæjarins.
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri afhenti viðurkenningarnar í gær í Jónshúsi sem er að Strikinu 6 og stendur þannig við eina verðlaunalóðina.
Einbýlishúsalóðirnar sem hlutu viðurkenningu í ár eru:
- Dalsbyggð 9
- Fífumýri 5
- Stekkjarflöt 7
- Sunnuflöt 43
Lýsingarnar hér á eftir eru úr umsögn umhverfisnefndar um lóðirnar.
Lóðir íbúðarhúsnæðis:
Dalsbyggð 9
Dalsbyggð 9 er byggð árið 1978. Á lóðinni er töluverður hæðarmismunur og er hún umvafin fjölbreyttum gróðri. Baklóðin kom skemmtilega á óvart með matjurtareitum, moltugerð og leikplássi fyrir barnabörnin. Undir stóru grenitré er legstaður gæludýra með litlum hvítum krossum.
Fífumýri 5
Fífumýri 5 var byggð árið 1984. Garðurinn er sérstaklega snyrtilegur með opinni aðkomu að húsinu götumegin, en aldingarði á baklóð. Þar er meðal annars tilkomumikill Garðahlynur og lyngrós af stærri gerðinni, ásamt öðrum fjölbreyttum gróðri. Garðurinn er á sínu besta skeiði.
Stekkjarflöt 7
Húsið er byggt fyrir rúmum fjórum áratugum og er með eldri húsum bæjarins. Núverandi eigendur hafa smátt og smátt endurnýjað garðinn, látið gömlu trén standa og breytt bakgarðinum í samkallaðan skrúðgarð með vel snyrtum beðum fullum af blómstrandi trjágróðri s.s. eplatrjám og fjölærum blómum. Einstaklega skemmtilegt svæði er fyrir ungviði á baklóð, m.a. með fallegum stiklustígum. Fuglahús prýða garðinn ásamt safnhaugskassa.
Sunnuflöt 43
Er lóð í góðri umhirðu. Húsið er byggt árið 1966. Það er mjög mikill hæðarmunur á lóðamörkum við Sunnuflöt og baklóðinni að lóðamörkum við Vífilsstaðaveg. Þessar aðstæður gefa ýmsa möguleika til útfærslu, s.s. hraungrýti til að jafna hæðarmismun milli götu og húss. Þar vex fjölbreyttur trjágróður. Á baklóð er matjurtagarður fjölskyldunnar með safnkassa. Eigendur hafa unnið að endurgerð á lóðinni og fækkað hávöxnum trjám sem er til eftirbreytni.
Strikið 2 – 12
Eigendur samliggjandi lóða fjölbýlishúsa við Strikið 2 – 12 fá viðurkenningu fyrir sérlega vel hirtar lóðir húsanna. Á baklóð er gott útivistarsvæði og þar er meðal annars púttvöllur. Húsin við Strikið voru reist árið 2006. Baklóðin liggur við vinsælan göngustíg með ströndinni.Viðurkenningu fyrir lóð fyrirtækis eða stofnunar hlýtur í ár:
Náttúrufræðistofnun Íslands á Urriðaholti
Eigendur húss Náttúrufræðistofnunar eiga hrós skilið fyrir smekklegan frágang lóðar og umhverfis hússins á Urriðaholti.
Snyrtilegasta gatan 2011
Kjarrás
Kjarrás er valin snyrtilegasta gata bæjarins í ár. Götumyndin við Kjarrás er sérstaklega snyrtileg með frágengnum lóðum.
Viðurkenningarskilti sem sett verður upp í götunni.