15. júl. 2011

Gönguleið í Búrfellsgjá bætt

Fjölbreytt verkefni eru unnin af ungu fólki í sumarvinnu hjá Garðabæ. Unga fólkið er hluti af sérstökum skógræktarhópum sem starfa í landi Garðabæjar í sumar. Gönguleiðin í Búrfellsgjá var í lélegu ástandi og þar hefur verið unnið að verulegum samgöngubótum. Timburstigi sem er niður um Hjallamisgengið var endurnýjaður.
  • Séð yfir Garðabæ

Fjölbreytt verkefni eru unnin af ungu fólki í sumarvinnu hjá Garðabæ.  Unga fólkið er hluti af sérstökum skógræktarhópum sem starfa í landi Garðabæjar í sumar. Gefst þá tækifæri að skapa og endurnýja það sem er utan hefðbundinna verkefna garðyrkju. Töluvert hefur verið unnið í útivistarstígum ofan byggðar í sumar, eldri stígar lagfærðir t.d. í Vífilsstaðahlíð og unnið að nýjum stígum t.d. í Smalaholti.

Gönguleið í Búrfellsgjá

Gönguleiðin í Búrfellsgjá var í lélegu ástandi og þar hefur verið unnið að verulegum samgöngubótum. Timburstigi sem er niður um Hjallamisgengið var endurnýjaður.  Þórir smiður garðyrkjudeildar Garðabæjar sá um smíði á nýja stiganum ásamt skógræktarhópi.  Hópurinn er nú að lagfæra stíginn ofan Hjallamisgengis frá enda Vífilsstaðahlíðar og niður frá stiganum að Búrfellsgjá. Þessi stígur var orðinn úr sér genginn með grjót í yfirborði sem nú er hreinsað upp.


Nýi stiginn er rúmlega 6 m að lengd og tekur við af eldri stiga sem var orðinn gamall og fúinn.