24. jún. 2011

Vel heppnuð Jónsmessugleði

Góð stemmning var á hinni árlegu Jónsmessugleði Grósku í Garðabæ sem var haldin á göngustígnum Sagnaslóð við ströndina í Sjálandshverfinu fimmtudagskvöldið 23. júní sl.
  • Séð yfir Garðabæ

Góð stemmning var á hinni árlegu Jónsmessugleði Grósku í Garðabæ sem var haldin á göngustígnum Sagnaslóð við ströndina í Sjálandshverfinu fimmtudagskvöldið 23. júní sl.

Ungt fólk í aðalhlutverki

Hátt á þriðja tug myndlistarmanna sýndi verk sín sem búin voru til sérstaklega fyrir þetta kvöld en þemað í ár var ,,Ströndin". Aðrir listamenn úr bænum tóku einnig þátt í gleðinni og meðal þeirra sem komu fram voru Jóhann Björn Ævarsson tónlistarmaður, Birgitta Haukdal söngkona, Ómar Guðjónsson tónlistarmaður og bæjarlistamaður Garðabæjar, gospelkór Jóns Vídalín og skátakórinn. Stórt hlutverk þetta kvöld var í hendi skapandi hóps ungs fólks í Garðabæ sem stóð m.a. fyrir veifugerð og sandkastalagerð fyrir börn, auk þess sem hljómsveitir á þeirra vegum léku lög fyrir gesti. Aðrir ungir Garðbæingar stóðu sig vel og fluttu ljóð, spiluðu á harmonikku, sáu um boltakeppni o.fl.

Gefum, gleðjum og njótum

Einkunnarorð og hugmyndafræði Jónsmessugleðinnar er ,,Gefum, gleðjum og njótum". Allir listamennirnir sem komu fram gáfu vinnu sína. Skátafélagið Vífill setti einnig mikinn svip á hátíðina. Skátar höfðu umsjón með eldum í tunnum sem voru víðs vegar við göngustíginn og gestir og gangandi gátu yljað sér við á milli þess sem þeir gengu á milli verka. Yngsta kynslóðin naut góðs af því að geta grillað sér sykurpúða með dyggri aðstoð skáta. Einnig voru fjölmargir aðrir sem komu að gleðinni, s.s. bæjarstarfsmenn, leikskólinn Sjáland, Hjálparsveit skáta o.fl. Garðbæingar og gestir annars staðar frá fengu sér margir hverjir göngutúr um svæðið og nutu þess að hitta listamenn á staðnum, nágranna og vini.

Jónsmessugleðin var nú haldin í þriðja sinn á vegum Grósku, samtaka myndlistarmanna og áhugafólks um myndlist í Garðabæ og á Álftanesi, með aðstoð Garðabæjar og fleiri góðra aðila.

Myndasyrpa á vef Garðabæjar.

Myndir frá Jónsmessugleðinni 2011