6. jún. 2011

5000 konur hlupu um Garðabæ

Yfir 5000 konur tóku þátt í kvennahlaupi ÍSÍ í Garðabæ á laugardaginn. Við það tilefni var úthlutað þremur styrkjum úr 19. júní sjóði.
  • Séð yfir Garðabæ

Yfir 5000 konur tóku þátt í kvennahlaupi ÍSÍ í Garðabæ á laugardaginn. Góð stemmning var í hlaupinu sem konur og stúlkur á öllum aldri tóku þátt í, hver á sínum forsendum. Boðið var upp á þrjár leiðir, tvo, fimm og tíu kílómetra.

 

Í allt tóku um 15.500 konur þátt í hlaupinu um land allt. Kvennahlaupið, er fyrir löngu orðinn einn stærsti íþróttaviðburður á landinu og hefur það verið haldið árlega frá 1990. Í ár var hlaupið á 85 stöðum hérlendis og á 14 stöðum erlendis.

 

Fleiri myndir frá kvennahlaupinu eru á vef Sjóvá.

 

Styrkir úr 19. júní sjóði

Hefð er fyrir því að úthluta styrkjum úr 19. júní sjóði á kvennahlaupsdaginn ár hvert en sjóðurinn var stofnaður til þess að efla og styrkja þátttöku kvenna í íþróttum.

Í ár fengu styrki: 

Anna Día Erlingsdóttir vegna sundkennslu fyrir eldri konur kr. 200.000.

Golfklúbburinn Oddur – kvennanefnd til að auka þátttöku kvenna, bæta þjálfun ungra stúlkna og til markvissrar kynningar í grunnskólum, kr. 100.000.
 
Barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar Stjörnunnar til að bjóða námskeið og stúlknabolta án gjaldtöku með því markmiði að fjölga iðkendum og til að bæta þjálfun unglingsstúlkna, kr. 500.000

Umsókn um styrk frá Fimleikadeild Stjörnunnar er jafnframt í skoðun hjá Íþrótta- og tómstundaráði.