Fjögurra ára börn í Flataskóla
Frá og með næsta hausti verður boðið upp á starf fyrir fjögurra ára börn í Flataskóla.
Fimm ára bekkur hefur verið starfræktur í Flataskóla í tvo vetur og hafa bæði börn og foreldrar lýst ánægju með starfið þar. Starfið tekur mið af starfi leikskóla en börnin fá jafnframt að takast á við krefjandi verkefni, hvert á sínum forsendum. Þá njóta þau þess að umgangast sér eldri börn og að komast í íþróttatíma, tónlistartíma og heimilisfræði svo dæmi séu tekin.
Næsta haust er gert ráð fyrir stækkun leikskóladeildarinnar og þá verður boðið upp á starf fyrir börn frá fjögurra ára aldri. Eins og í fimm ára bekknum verður stuðst við aðalnámskrár leik- og grunnskóla. Markmiðin hjá fjögurra ára börnunum verða skilgreind í samræmi við nám og þarfir barnanna hverju sinni.
Skóladagur barnanna er heildstæður og heilsársskóli verður fyrir fjögurra og fimm ára börn að frátöldu sumarleyfi. Fyrirkomulag á málsverðum er hið sama og á leikskólum bæjarins að því undanskildu að ekki er boðið upp á morgunverð.
Kynningarfundur fyrir foreldra
Þeir foreldrar sem hafa áhuga á að kynnast starfi í 4 ára og 5 ára bekk eru velkomnir á kynningarfund í skólanum mánudaginn 10. mars klukkan 17:30.
Þeir eru einnig velkomnir á öðrum tíma en eru þá hvattir til að hafa samband áður á netfangið olofs@flataskoli.is eða í síma 5658560.
Innritun nemenda fer fram á skrifstofu skólans kl. 9.00-15.00, á heimasíðu skólans og rafrænt á Mínum Garðabæ
Sjá nánari kynningu á starfi fyrir leikskólabörn í Flataskóla.