4. maí 2011

Rafræn afgreiðsla í sund

Sú nýjung verður tekin upp á næstu dögum að gestir sundlaugarinnar í Ásgarði geti afgreitt sig sjálfir með sérstökum kortum
  • Séð yfir Garðabæ

Sú nýjung verður tekin upp á næstu dögum að gestir sundlaugarinnar í Ásgarði geti afgreitt sig sjálfir með sérstökum kortum. Slík rafræn afgreiðsla er nú í öllum sundlaugum í Reykjavík og víðar og reynist afar vel.

Viðskiptavinir laugarinnar þurfa að hafa sérstakt kort, á stærð við krítarkort, sem útbúið hefur verið í þessum tilgangi og ber nafnið GARÐAKORT. Kortin eru gefin út af Garðabæ í samstarfi við Curron ehf. Hver korthafi kaupir síðan þá sundmiða eða aðgang sem hann/hún vill og inneign með þeim er hlaðið inn á kortið. Kortin eru gefin út á tiltekinn einstakling sem getur fylgst með notkun sinni og inneign á vefsvæðinu www.cts.is. Við komu í sund er kortið lagt að skanna sem gefur grænt ljós ef inneign er fyrir hendi en annars rautt.

Núverandi korthafar

Allir sem nú hafa tímabundinn aðgang í sund og þrek í Ásgarði og vilja skipta yfir í GARÐAKORTIÐ þurfa að sækja um kortið í afgreiðslu Ásgarðs og greiða stofnkostnað kr. 700,-. Öll ný árskort og endurnýjun árskorta verða á GARÐAKORTI.

Eldri borgarar og öryrkjar

Þeir sem hafa gjaldfrjálsan aðgang s.s. eldri borgarar og öryrkjar verða að sækja um og hafa GARÐAKORTIÐ til að fá aðgang að sundlaug og þreki. Stofnkostnaður er kr. 700,- sem greiðist aðeins í fyrsta skipti og ef kort glatast. Þessir hópar fá ársmiða inn á sín kort endurgjaldslaust áfram sem hingað til.

Afhending korta

Fyrstu GARÐAKORTIN verða afhent föstudaginn 13. maí nk. Síðan verða ný kort afhent vikulega alltaf á föstudögum.

Aðgangur

Fyrst í stað verður ekki um lokuð aðgangshlið að ræða heldur verður viðskiptavinum treyst til að bera kortið að skanna til að afgreiða sig sjálfir.

Rafræn skráning

Sundlaugin í Ásgarði mun með þessari rafrænu skráningu geta haldið betur utan um alla notkun mismunandi hópa og í framhaldi af því bætt þjónustu við þá enn frekar. Ýmsir framtíðarmöguleikar liggja í notkun GARÐAKORTSINS hjá bæjarfélaginu sem verða kynntir síðar en þar má nefna þjónustu við afmarkaða hópa s.s. eldri borgara, öryrkja ofl. Með því er hægt að greina hvernig þjónustan er nýtt og á hvaða tímum hennar er mest þörf.