29. apr. 2011

Sumarsýning Grósku

Sumarsýning Grósku var opnuð í göngugötunni á Garðatorgi fimmtudaginn 28. apríl. Við þetta tækifæri var undirritaður samstarfssamningur á milli Garðabæjar og Grósku til eins árs. Með samstarfssamningnum er stutt við starfssemi Grósku og um leið þær sýningar og verkefni sem félagið hefur staðið fyrir.
  • Séð yfir Garðabæ

Sumarsýning Grósku var opnuð í göngugötunni á Garðatorgi fimmtudaginn 28. apríl. Þetta er þriðja árið í röð sem myndlistarmenn standa fyrir svona samsýningu og að þessu sinni taka þátt 27 myndlistarmenn úr félaginu Grósku.  Birgir Rafn Friðriksson formaður Grósku opnaði sýninguna sem stendur til föstudagins 6. maí nk.

 

Við þetta tækifæri var undirritaður samstarfssamningur á milli Garðabæjar og Grósku til eins árs.  Með samstarfssamningnum er stutt við starfsemi Grósku og um leið þær sýningar og verkefni sem félagið hefur staðið fyrir.  Samtökin Gróska eru frjáls félagasamtök myndlistar- og áhugafólks um myndlist búsett eða starfandi í Garðabæ og á Álftanesi. Tilgangur samtakanna Grósku er að efla stöðu myndlistar og stuðla að samvinnu félagsmanna.  Gróska hefur undanfarin ár staðið fyrir vel heppnaðri Jónsmessugleði og aftur er stefnt að slíkri hátíð í júní á þessu ári. 


Allir eru velkomnir á sýninguna sem nú stendur yfir í göngugötunni á Garðatorgi.  Sýningin er opin á hefðbundnum afgreiðslutíma torgsins frá 10-18 alla daga til föstudagsins 6. maí nk.


Birgir Rafn Friðriksson opnaði sumarsýninguna


Frá vinstri: Áslaug Hulda Jónsdóttir formaður menningar- og safnanefndar, Gunnar Einarsson bæjarstjóri, Birgir Rafn Friðriksson formaður Grósku og Þóra Einarsdóttir stjórnarmaður í Grósku

 

Útstilling

Önnur sýning sem var opnuð um leið er sýning útskriftarnemenda af fata- og textílbraut Fjölbrautaskólans í Garðabæ.  Útstilling á verkum þeirra er opin eingöngu þessa helgi 29. apr - 1. maí frá kl. 13-16 í húsnæðinu á Garðatorgi 1 (gamla Hagkaupshúsið, jarðhæð gengið af göngugötu).


Sýning á verkum nemenda úr FG