7. apr. 2011

Frábærir píanótónleikar

Hollenski píanóleikarinn Martyn van den Hoek hélt píanótónleika í safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli þriðjudagskvöldið 5. apríl sl. Tónleikarnir voru þeir síðustu í klassískri tónleikaröð á vegum menningar- og safnanefndar þennan vetur. Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er píanóleikarinn Gerrit Schuil
  • Séð yfir Garðabæ

Hollenski píanóleikarinn Martyn van den Hoek hélt píanótónleika í safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli þriðjudagskvöldið 5. apríl sl.  Tónleikarnir voru þeir síðustu í klassískri tónleikaröð á vegum menningar- og safnanefndar þennan vetur.  Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er píanóleikarinn Gerrit Schuil sem fékk til liðs við sig úrvalslið tónlistarfólks.

 

Martyn van den Hoek nam píanóleik við Tónlistarháskólann í Rotterdam en stundaði síðan framhaldsnám í Moskvu, Búdapest og New York.   Eftir að hafa unnið til Hollensku tónlistarverðlaunanna árið 1987 var Martyn van den Hoek útnefndur menningarsendiherra Rotterdamborgar og við tók glæstur tónleikaferill. Hann hefur komið fram með mörgum af virtustu hljómsveitum heimsins, meðal annars undir stjórn hljómsveitarstjóra á borð við Jean Fournet, Kyrill Kondrashin, David Zinman, Emile Tschacharov og Richard Dufallo.

 

Tónleikarnir á þriðjudaginn voru tileinkaðir tónskáldinu Franz Listz en á þessu ári eru 200 ár liðin frá fæðingu hans. Meðal verka á efnisskránni voru Dante-sónatan, Transcendental etýða nr. 11 og Ungverska rapsódían nr. 2. Áhorfendur kunnu vel að meta þá fögru tóna sem hljómuðu í safnaðarheimilinu þetta kvöld og höfðu mikla ánægju af.