Kynna sér iðn- og verkgreinar
Nemendur í unglingadeildum grunnskólanna fara í þessari viku á Íslandsmót iðn- og verkgreina og framhaldsskólakynningu sem verður í Kórnum í Kópavogi 6.-8. mars.
Nemendur verða sóttir með rútum og fara ásamt kennurum og náms- og starfsráðgjöfum á sýninguna þar sem þeim gefst gott tækifæri til að skoða, upplifa, prufa og smakka á ýmsu góðgæti.
Nemendur sjá framhaldsskólanemendur keppa í sinni iðngrein og fá að spreyta sig sjálfir á ýmsu af því sem verið er að kynna. Má t.d. nefna að þau geta prófað að búa til marsipanblóm, reynt að bilanagreina bíl, blandað óáfengan kokteil, prófað suðuhermi og handanudd. Einnig geta þau fylgst með smíði trébáts, prófað ökuhermi, flughermi og ótal margt fleira.
Sýningin er opin fyrir almenning og eru foreldrar hvattir til að koma með börnum sínum, ekki síst þeim sem standa frammi fyrir þeirri ákvörðun að velja sér nám í vor, jafnvel þótt þau hafi farið með skólanum. Eins er öllum þeim sem áhuga hafa á að kynna sér nám á framhaldsskólastigi bent á að nýta sér þetta tækifæri.