29. mar. 2011

Hugmyndir um LACK

Í dag er síðasti dagur Sýningarinnar Hugmyndir um Lack sem haldin er í anddyri IKEA. Um 60 hönnuðir sýna hugmyndir sínar og útfærslur á borðinu LACK frá IKEA sem þeir unnu á námsstefnu með Siggu Heimis iðnhönnuði.
  • Séð yfir Garðabæ

Í dag er síðasti dagur Sýningarinnar Hugmyndir um Lack sem haldin er í anddyri IKEA. Um 60 hönnuðir sýna hugmyndir sínar og útfærslur á borðinu LACK frá IKEA sem þeir unnu á námsstefnu með Siggu Heimis iðnhönnuði. Námsstefnan og sýningin er samstarfsverkefni fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar, IKEA og Hönnunarsafns Íslands.

Borð breytast í stóla og farartæki


Á námsstefnunni var unnið með hugmyndir um endurnýtingu og endurvinnslu á borðinu LACK sem er eitt mest selda borð í heimi. Þar voru kynntar skemmtilegar hug­myndir um fjölnota hönnun sem er hluti af hugmyndafræði um umhverfisvæna hönnun og hefur það markmið að lengja líftíma hluta. Þátttakendur fengu aðgang að efnisveitu en gátu líka nýtt efni að heiman og þannig valið ólíkan efnivið til að gera LACK borðið að „sinni hönnun“ og velt fyrir sér formi og notagildi. Á námsstefnunni tók borðið LACK á sig ýmsar myndir og í höndum hönnuðanna breyttist efniviðurinn m.a. í stóla, farartæki, lágmyndir, loft -og veggljós. 

Fyrirlesari og kennari námsstefnunnar, Sigga Heimis, var einn af aðalhönnuðum IKEA á sl. áratug en hún lauk mastersgráðu í hönnun frá Domus Academy í Mílanó. Námsstefnan var haldin í tengslum við sýningu Hönnunarsafns Íslands á verkum Siggu. Hún var ætluð hönnuðum, nemum í hönnun, list- og verkgreinakennurum og kennurum í nýsköpun og hönnun á leik-, grunn og framhaldsskólastigi á höfuðborgarsvæðinu.