4. mar. 2011

Fjölbreytt dagskrá í Garðabæ

Það verður mikið um að vera í Garðabæ um helgina. Helgin hefst á því að lið Garðabæjar keppir á móti liði Álftaness í Útsvari í Sjónvarpinu. Eins og allir vita fór Garðabær með sigur af hólmi í Útsvarinu í fyrra og á því titil að verja.
  • Séð yfir Garðabæ

Það verður mikið um að vera í Garðabæ um  helgina. Helgin hefst á því að lið Garðabæjar keppir á móti liði Álftaness í Útsvari í Sjónvarpinu. Eins og allir vita fór Garðabær með sigur af hólmi í Útsvarinu í fyrra og á því titil að verja. Þeir sem vilja vera viðstaddir keppnina og hvetja sitt lið til sigurs eru velkomnir í Sjónvarpssal kl. 19.40.  

 

Áhugamenn um íþróttir geta stutt við Stjörnuna í körfubolta og handbolta um helgina.  Föstudagskvöldið 3. mars eru heimaleikir í Ásgarði og Mýrinni og kvennalið Stjörnunnar leikur gegn HK kl. 18 í Mýrinni laugardaginn 4. mars. Á heimasíðu Stjörnunnar er hægt að sjá nánari upplýsingar um leikina.  


 

Á morgun laugardag verður fjölbreytt dagskrá í bænum. Tilvalið er að byrja í Ásgarði en þar verður dagskrá um heilsueflingu kl. 10-12. Þar verður kynning á því sem er í boði í Garðabæ á sviði hreyfingar og heilsueflingar, boðið verður upp á ýmsar mælingar svo sem á blóðþrýstingi, blóðfitu og sykurmagn í blóði. Frítt verður í sund meðan dagskrá stendur yfir og hægt að fara í prufutíma kl. 10:30 í vatnsleikfimi og Rope yoga.

 

Klukkan 13 opnar götumarkaður á Garðatorgi en þar verður fjölbreytt vara til sölu, bæði notuð og ný, handverk og matvæli. Markaðurinn verður opinn laugardag og sunnudag kl. 13.18.


 

Náttúrufræðistofnun Íslands býður svo til opins húss í nýjum heimkynnum sínum í Urriðaholti kl. 13-17.  Í opna húsinu gefst gestum kostur á að fræðast um störf náttúruvísindamanna stofnunarinnar og skoða þá stórbættu aðstöðu sem þeir hafa fengið í nýja húsinu.


Skýrt verður frá því hvernig náttúrugripir eru varðveittir og nokkrir slíkir verða til sýnis. Þar á meðal er geirfuglinn, sem keyptur var á uppboði í London fyrir nákvæmlega 40 árum með samskotum frá almenningi.