Vinaheimsókn til Asker
Um miðjan febrúar fór hópur leikskólakennara ásamt leikskólafulltrúa og upplýsingafulltrúa Garðabæjar í heimsókn til vinabæjarins Asker í Noregi. Heimsóknin var liður í samstarfsverkefni vinabæjar Garðabæjar, iLek (sjá www.ilek.is ) um notkun spjaldtölva í leikskólastarfi sem styrkt er af Nordplus (www.nordplus.is). Markmið verkefnisins er meðal annars að efla samstarf í leikskólum í vinabæjum Garðabæjar með notkun spjaldtölva. Tveir leikskólakennarar í Asker í Noregi, Eslöv í Svíþjóð og Jakobstad í Finnlandi taka þátt í verkefninu ásamt kennurum frá Bæjarbóli og Lundabóli. Liður í verkefninu eru námskeið sem vinabæirnir skiptast á að halda. Hópurinn hittist í Garðabæ haustið 2013 og nú var komið að Asker að halda námskeið.
Fræðsla um notkun spjaldtölva í leikskólastarfi
Jo Fiske forstöðumaður félags- og fræðslusviðs Asker hitti hópinn og kynnti starfsemi sviðsins sem nær yfir daggæslu, leik- og grunnskóla og barna- og fjölskylduvernd. Meðal þess sem kom fram í máli hans er að 13% starfsfólks leikskóla í Asker eru karlmenn en sveitarfélagið hefur sett sér sem markmið að fjölga þeim á næstu árum í 20%. MIB (http://www.asker.kommune.no/Barnehage/MIB/) er félag karlmanna í leikskólum í Noregi.
Hópurinn fékk einnig kynningu frá Magnus Johansson, sem er ráðgjafi í upplýsingatæknimálum skóla hjá Asker. Magnus sagði frá verkefni þar sem áhersla er lögð á að nýta möguleika spjaldtölva til stærðfræðikennslu í leikskólum. Einnig fjallaði hann um viðmið í mati á þeim ,,öppum“/ smáforritum sem eru ætluð börnum á leikskólaaldri.
Á meðan á námskeiðinu stóð í Asker heilsaði bæjarstjóri Asker, Lene Conradi, uppá hópinn og ræddi um mikilvægi norræns samstarfs nú á dögum. Hópurinn tók einnig þátt í vinnusmiðju undir leiðsögn ráðgjafa frá IKT senteret (upplýsingatæknisetur) sem heyrir undir menntamálaráðuneytið í Noregi. Í vinnusmiðjunni fengu þátttakendur meðal annars að kynnast smáforritunum I-movie og Pic Collage. Á vefsíðu IKT, www.iktsenteret.no eru greinargóðar upplýsingar um m.a. tölvunotkun í leikskólum, gæðaviðmið, námskeiðahald o.fl.
Heimsóknir í leikskóla og menningarstofnanir
Í Asker heimsótti hópurinn leikskólann Søndre Borgen þar sem tveir þátttakendur í Nordplusverkefninu starfa. Leikskólinn er á neðstu hæð í byggingu sem einnig hýsir hjúkrunarheimili og gott samstarf er á milli leikskólans og hjúkrunarheimilisins. Í leikskólanum eru mörg börn af erlendum uppruna og mikil áhersla er lögð á rækt við tungumál í skólastarfinu.
Hópurinn heimsótti einnig ýmis söfn í Asker og fengu þar leiðsögn og upplýsingar um hvernig tekið er á móti leikskóla- og skólahópum í safnastarfinu. Auk þess gafst tækifæri til að skoða menningarhús Asker þar sem bókasafnið er til húsa ásamt félagsmiðstöð fyrir ungmenni. Þar er einnig að finna fjölnota tónleikasali og fyrirlestra-, funda- og veislusali.
Samstarfið framundan
Á meðan á heimsókninni stóð í Asker í febrúar fundaði hópurinn sem tekur þátt í Nordplusverkefninu og fór yfir samstarfið og þau verkefni sem stefnt er að því að vinna að á næstu mánuðum. Meðal annars er stefnt að áframhaldandi samskiptum í gegnum spjaldtölvu þar sem börnin á leikskólunum t.d. syngja fyrir hvort annað á milli landa með því að nota samskiptaforritið Face-time. Einnig verða á næstunni unnin verkefni með norrænum barnabókum í gegnum smáforritið book-creator.