8. feb. 2011

Dagur leikskólans

Í tilefni af degi leikskólans var foreldrum boðið í heimsókn í leikskóla Garðabæjar föstudaginn 4. febrúar sl. Ljósaganga er orðin að hefð á degi leikskólans á Hæðarbóli. Börn, foreldrar og starfsmenn gengu fylktu liði,
  • Séð yfir Garðabæ

Að frumkvæði Félags leikskólakennara, menntamálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimilis og skóla hefur 6. febrúar verið ákveðinn dagur leikskólans, en þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Markmiðið með deginum er að vekja athygli á því góða og fjölbreytta starfi sem fram fer í leikskólum landsins.

 

Opið hús í leikskólum Garðabæjar

Í tilefni af degi leikskólans var foreldrum boðið í heimsókn í leikskóla Garðabæjar föstudaginn 4. febrúar sl.  Ljósaganga er orðin að hefð á degi leikskólans á Hæðarbóli. Börn, foreldrar og starfsmenn gengu fylktu liði, alhvít jörð og logn í ljósaskiptunum. Það hefði mátt heyra saumnál detta svo mikil var stemmingin í loftinu. Starfsmenn báru kyndla og börnin vasaljós og var endað með heitu súkkulaði og heimabökuðum kleinum í garðskálanum og auðvitað var lagið tekið í lokin.

 

Á Kirkjubóli var boðið upp á morgunkaffi fyrir foreldra og fagnaðarfund í sal. 
Foreldrum og börnum var einnig boðið í morgunkaffi á leikskólanum Lundabóli.
Á Sjálandi var öllum velkomið að koma í heimsókn, skoða skólann og fylgjast með starfinu. Einnig var opinn vinafundur, en þá máttu allir koma og vera með.


Á Sunnuhvoli var foreldrum Fiðrildadeildar boðið að koma í nýja fimleikasalinn í Ásgarði. Settar voru upp þrautarbrautir sem bæði foreldrar og börn æfðu sig saman í. Á Bangsadeild var foreldrum boðið að taka þátt í skapandi vinnu með börnunum. Einnig var hreyfistund undir stjórn Hófíar leikskólakennara og í lokin var frumsýnd stuttmynd um starfið á Sunnuhvoli.

 

Í Garðapóstinum sem kom út fimmtudaginn 3. febrúar sl. var góð umfjöllun um dag leikskólans og þar voru birtar greinar eftir foreldra leikskólabarna í Garðabæ. Á heimasíðum leikskólanna má einnig sjá umfjöllun og myndir frá degi leikskólans.