2. feb. 2011

Yfir 50 námskeið í Klifinu

Yfir 50 námskeið fyrir fólk á öllum aldri nú verða í Klifinu nú á vorönn. Klifið sem hefur aðsetur í húsnæði Sjálandsskóla býður fjölbreytt námskeið bæði fyrir börn og fullorðna.
  • Séð yfir Garðabæ

Yfir 50 námskeið fyrir fólk á öllum aldri nú verða í Klifinu nú á vorönn. Klifið sem hefur aðsetur í húsnæði Sjálandsskóla býður fjölbreytt námskeið bæði fyrir börn og fullorðna.

Starfsemi Klifsins hófst síðastliðið haust. Að Klifinu standa Garðbæingarnir Ágústa Guðmundsdóttir og Ásta Sölvadóttir. Þær byrjuðu með nokkur námskeið á haustönn, þar á meðal afródans, badminton, saumanámskeið, létt líf o.fl. Í nóvember stóð Klifið fyrir hamingjukvöldinu meyja, mamma, amma í samstarfi við Jónu Hrönn Bolladóttur sóknarprest og kirkjuna í Garðabæ. Þær stöllur segja hamingjukvöldið hafa heppnast einstaklega vel og stefna á að það verði árlegur viðburður í dagskrá Klifsins.

Vilja auka hamingju

 ,,Eitt aðal markmið Klifsins er að auka enn frekar hamingju Garðbæinga. Boðið er upp á persónulega og góða þjónustu, hlýlegt viðmót og alúð við viðskiptavini. Að koma á námskeið hjá Klifinu er upplifun þar sem mannlegri og öðruvísi nálgun er beitt," segja þær og bæta við  ,,við viljum virkja Garðbæinga og aðra áhugasama til að búa til lifandi samfélag. Samfélag þar sem fólk hittist og leggur rækt við sjálft sig, kynnist innbyrðis og upplifir nærumhverfið á nýjan hátt."

Klifið býður upp á yfir 50 námskeið á vorönn og hefur fengið til liðs við sig úrvals leiðbeinendur. Í Klifinu verða m.a. námskeið sem snúa að garðrækt, umhverfinu, list og handverki, tónlist, tölvum, sjálfsrækt, vísindum, matarmenningu, hreyfingu og útivist.

Núna á vorönn verður einnig boðið upp á fjölbreytt námskeið fyrir börn og unglinga.

Þær Ágústa og Ásta eru þakklátar fyrir jákvæð viðbrögð. ,,Við viljum sjá sem flesta upplifa Klifið. Námskeiðin eru mjög fjölbreytt svo allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi."

Skráning á námskeið

Hægt er að skrá sig á námskeiðin á vef Klifsins: www.klifid.is  eða senda tölvupóst á netfangið: klifid@klifid.is .

Eins er tekið á móti skráningum í síma: 858 1543.

Allir Garðbæingar og aðrir áhugasamir eru velkomnir í Klifið.