28. jan. 2011

Nágrannavarslan skilar árangri

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu skynjar góðan árangur af nágrannavörslu í Garðabæ. Innbrotum á heimili í Garðabæ hefur fækkað ár frá ári á árunum 2007-2010 á meðan þeim fjölgaði mjög árið 2009 á höfuðborgarsvæðinu í heild.
  • Séð yfir Garðabæ

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu skynjar góðan árangur af nágrannavörslu í Garðabæ. Innbrotum á heimili í Garðabæ hefur fækkað ár frá ári á árunum 2007-2010 á meðan þeim fjölgaði mjög árið 2009 á höfuðborgarsvæðinu í heild. Fólk í Garðabæ er greinilega vel vakandi fyrir grunsamlegum mannaferðum og hringir meira til að tilkynna um slíkt en þeir sem búa í nágrannasveitarfélögunum. Þetta kom fram í máli Ólafs Emilssonar stöðvarstjóra á lögreglustöðinni í Hafnarfirði á árlegum fundi lögreglunnar með stjórnendum Garðabæjar og fulltrúum foreldra.

 

Lögreglan lýsti yfir ánægju sinni með árangur Garðbæinga í nágrannavörslu og hvatti þá til að halda áfram á sömu braut. Ítrekað skal að innbrot á heimili verða oft að degi til og þá geta vökulir nágrannar skipt sköpum.

 

Í samantekt Ólafs kom einnig fram að fjöldi afbrota almennt í Garðabæ er lægri en meðaltal á höfuðborgarsvæðinu í heild. Þetta á við um allar gerðir afbrota, þ.á.m. innbrot, þjófnaði og ofbeldisbrot. 

 

Í glærukynningu Ólafs sem skoða má hér fyrir neðan er lögreglustöðin í Hafnarfirði merkt sem stöð 2. Þar má sjá að íbúum á svæði stöðvar 2 (Hafnarfjörður, Garðabær og Álftanes) finnst lögreglan síður aðgengileg en íbúum annars staðar á höfuborgarsvæðinu. Á fundinum veltu menn fyrir sér hverjar orsakir þessa væru og kom fram ríkur vilji hjá lögreglunni til að bæta úr.

 

Þróun brota í Garðabæ 2007-2010, glærukynning Ólafs Emilssonar stöðvarstjóra í Hafnarfirði.

 

 

Fjöldi innbrota á heimili 2007-2010