17. jan. 2011

Íþróttamenn Garðabæjar 2010

Birgir Leifur Hafþórsson, kylfingur í GKG og Hanna Rún Ólafsdóttir, dansari eru íþróttamenn Garðabæjar 2010.
  • Séð yfir Garðabæ

Birgir Leifur Hafþórsson, kylfingur í GKG og Hanna Rún Ólafsdóttir, dansari eru íþróttamenn Garðabæjar 2010. Kjöri þeirra var lýst við hátíðlega athöfn sunnudaginn 16. janúar en þetta er í fyrsta sinn sem valinn er einn karl og ein kona sem íþróttamenn ársins.


Birgir Leifur Hafþórsson
hlýtur titilinn íþróttamaður Garðabæjar í þriðja sinn en hann var einnig íþróttamaður ársins 2003 og 2004. Birgir Leifur hefur stundað golf síðan um 10 ára aldur og hefur mörg undanfarin ár verið einn fremsti kylfingur landsins. Birgir Leifur var fyrsti Íslendingurinn til að tryggja sér þátttökurétt á Evrópumótaröðinni.

Hanna Rún Ólafsdóttir, hefur æft suður-ameríska dansa með Dansíþróttafélagi Kópavogs frá því hún var 4 ára gömul (í 16 ár) og orðið Íslandsmeistari á hverju ári frá 1997. Hún og dansherra hennar Sigurður Þór Sigurðsson hafa dansað saman í 2 ár og unnið allar þær keppnir hér á landi sem þau hafa tekið þátt í. 

Árangur Birgis Leifs

Eftirfarandi listi sýnir yfirlit yfir helsta árangur Birgis á nýliðnu keppnistímabili, en hann sigraði á öllum einstaklingsmótum á Íslandi, sem hann tók þátt í á tímabilinu:

1. sæti Íslandsmót í höggleik sem haldið var hjá Golfklúbbi Kiðjabergs.
1. sæti Íslandsmót í holukeppni sem haldið var hjá Golfklúbbi Leynis á Akranesi.
1. sæti Meistaramót GKG.
3. sæti Íslandsmót í sveitakeppni GSÍ hjá Golfklúbbnum Keili.
Vann alla sína leiki (5) í Sveitakeppni GSÍ með sveit GKG.
Lék á 58 höggum í sumar, 14 undir pari, á Akranesi, sem er árangur á heimsmælikvarða, en fáir kylfingar í heiminum hafa náð viðlíkum árangri.
52. sæti á Austrian Open mótinu sem er hluti af evrópsku mótaröðinni.
2. sæti á öðru stigi úrtökumóts fyrir evrópsku mótaröðina (Qualifying school).
Tryggði sér þátttökurétt á evrópsku áskorendamótaröðina (Challenge Tour).

Frábær liðsmaður

Birgir Leifur hefur glímt við meiðsli undanfarin ár og leit út fyrir að ferill hans væri á enda. Með góðri endurhæfingu og réttu hugarfari, náði Birgir Leifur góðum bata sem gerði honum kleift að leika áfram keppnisgolf. Hann þykir frábær fyrirmynd annarra yngri sem eldri kylfinga, er reglusamur, vinnusamur og jákvæður. Hann er frábær liðsmaður, hvetjandi og drífandi. Birgir Leifur hefur starfað hjá GKG sem leiðbeinandi barna og unglinga, og hefur verið mjög vinsæll meðal nemenda sinna.

Birgir Leifur stefnir á að endurheimta þátttökurétt sinn á Evrópumótaröðinni.

Margfaldur Íslandsmeistari í dansi

Hanna Rún Ólafsdóttir og dansherra hennar, Sigurður Þór Sigurðsson eru Íslandsmeistarar, DSÍ open meistarar, Bikarmeistarar, Reykjavík International meistarar, Landsmótsmeistarar og fleira.  Í byrjun ársins fóru þau á heimsbikarmót, í flokki fullorðinna, í Kanada og náðu þar 12. sæti. Þau kepptu einnig á Norður-Evrópumeistaramóti líka í flokki fullorðinna og lentu þar í 8. sæti. Hanna Rún og Sigurður kepptu svo í New York á heimsmeistaramóti í nóvember og náðu þar 47. sæti (í flokki fullorðinna). Sá árangur þykir mjög góður enda er keppnin afar sterk og á hana komast aðeins tvö bestu pörin frá hverju landi.

Íþróttamenn Garðabæjar 2011, Birgir Leifur Hafþórsson og Hanna Rún Óladóttir