Samstaða um fjárhagsáætlun
Fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2011 var samþykkt samhljóða á fundi bæjarstjórnar í gær, 16. desember. Þetta er annað árið í röð sem fjárhagsáætlun bæjarins er samþykkt með atkvæðum allra bæjarfulltrúa en fátítt er að slíkt gerist. Gert er ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu að fjárhæð 149 milljónir króna og að veltufé frá rekstri verði 13,2%.
Í fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir því að langtímaskuldir verða greiddar niður um tæplega 400 milljónir króna á árinu 2011 og að framkvæmdir, fyrir allt að 580 milljónir króna, verði fjármagnaðar án lántöku. Stærstu framkvæmdir ársins eru bygging leikskóla í Akrahverfi í Garðabæ og upphafsframkvæmdir við byggingu hjúkrunarheimilis á Sjálandi.
Hvatapeningar fyrir 5 ára börn
Álögur á íbúa í Garðabæ verða áfram lágar á árinu 2011. Útsvar er með því lægsta sem gerist hjá íslenskum sveitarfélögum, 12,46% og gjaldskrárhækkanir eru óverulegar. Ekki er reiknað með niðurskurði í helstu málaflokkum svo sem fræðslu-, íþrótta- og æskulýðsmálum og félagsþjónustu. Reglur um hvatapeninga til iðkunar íþrótta- og æskulýðsstarfs verða rýmkaðar þannig að börn frá 5 ára aldri eiga rétt á hvatapeningum á árinu 2011 en hingað til hafa þeir verið fyrir börn og ungmenni á aldrinum 6-18 ára.
Hagræðis gætt í rekstri
Þótt ekki sé gert ráð fyrir sérstökum niðurskurði verður áframt gætt ítrasta hagræðis í rekstri og gætt að hagkvæmni í öllum innkaupum. Þá er gert ráð fyrir að ýmsum aðhaldsaðgerðum sem hrint var í framkvæmd á árinu 2009 verði framhaldið á árinu 2011.