1. des. 2010

Framkvæmdir við nýjan leikskóla

Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar og Áslaug Hulda Jónsdóttir forseti bæjarstjórnar Garðabæjar tóku í dag fyrstu skóflustunguna að nýjum leikskóla í Garðabæ. Þeim til aðstoðar var hópur barna af leikskólanum Hæðarbóli. Leikskólinn verður byggður við Línakur í Garðabæ og á að rúma 100 börn.
  • Séð yfir Garðabæ

Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar og Áslaug Hulda Jónsdóttir forseti bæjarstjórnar Garðabæjar tóku í dag, miðvikudaginn 1. desember,  fyrstu skóflustunguna að nýjum leikskóla í Garðabæ  Þeim til aðstoðar var hópur barna af leikskólanum Hæðarbóli.  Leikskólinn verður byggður við Línakur í Garðabæ og á að rúma 100 börn.

 


Við hönnun leikskólans var tekið mið af áherslum á heilbrigði og hreyfingu m.a. með opnum rýmum. Hönnunarteymið Ferill með Einrum arkitektum innanborðs varð hlutskarpast í útboði um hönnun húsnæðisins sem 13 teymi tóku þátt í.

 


Baldur Jónsson verktaki átti lægsta tilboð í byggingu leikskólans kr. 247 millj. en 17 tilboð bárust. Leikskólinn verður byggður án lántöku af hálfu Garðabæjar. Áætlað er að leikskólinn hefji starfsemi sína snemma vors 2012.

 


Íbúum Garðabæjar hefur fjölgað jafnt og þétt á síðustu árum og eru þeir í dag 10.900 talsins.  Með byggingu leikskóla í Akrahverfi er öllum börnum sem verða 18 mánaða ár hvert áfram tryggð leikskóladvöl.