19. feb. 2014

Fjör í Álftaneslaug á Sundlauganótt

Laugardaginn 15. febrúar sl. var haldin Sundlauganótt víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu. Garðabær tók í ár þátt í Sundlauganótt í fyrsta sinn og boðið var upp á dagskrá í Álftaneslaug. Álftaneslaugin var opin til miðnættis og góð aðsókn var í laugina um kvöldið.
  • Séð yfir Garðabæ

Laugardaginn 15. febrúar sl. var haldin Sundlauganótt víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu.  Garðabær tók í ár þátt í Sundlauganótt í fyrsta sinn og boðið var upp á dagskrá í Álftaneslaug.  Álftaneslaugin var opin til miðnættis og góð aðsókn var í laugina um kvöldið.  Fólk á öllum aldri kom við í fallegu vetrarveðri og hlýjaði sér í heitu pottunum.  Boðið var upp á öldudiskó í sundlauginni og sundlaugin var lýst upp í tilefni kvöldsins.  Öldusundlaugin var sett í gang og einnig var hægt að renna sér í vatnsrennibrautinni.  Sundlaugin var þéttsetinn þegar Ingó Veðurguð mætti með gítarinn á sundlaugarbakkann og tók nokkur vel valin lög.  Sundlaugargestir tóku vel undir hjá Ingó.  Síðar um kvöldið var boðið upp á jóga í vatni og fljótandi gongslökun undir leiðsögn Arnbjargar Kristínar Konráðsdóttur jógakennara.  Fjölmargir tóku þátt og flutu um og slökuðu á í innilauginni.

Myndlistarsýning í anddyrinu

Innandyra gátu gestir notið myndlistar og skoðað verk eftir myndlistarmenn úr Grósku, samtökum myndlistarmanna og áhugafólks um myndlist í Garðabæ.  Verk eftir Gróskufélaga verða áfram til sýnis í íþróttamiðstöðinni á Álftanesi út febrúar.   Sundlaugargestir voru mjög ánægðir með að fá að heimsækja laugina á laugardaginn og greinilegt að áhugi er fyrir því að hafa opið í sundlauginni á Sundlauganótt að ári.