26. nóv. 2010

Fyrirmyndarverkefni verðlaunað

Flataskóli hlaut gæðaviðurkenningu í landskeppni eTwinning 2009 – 2010. Tveir Garðabæjarskólar voru einu grunnskólarnir sem voru tilnefndi
  • Séð yfir Garðabæ

Flataskóli hlaut gæðaviðurkenningu frá Landskrifstofu menntaáætlunar ESB í ráðhúsinu í gærdag fyrir verkefnið „Lesum, skrifum og tölum saman“. Þetta voru verðlaun í flokki grunnskóla í landskeppni eTwinning 2009 – 2010. Garðabæjarskólarnir Hofsstaðaskóli og Flataskóli voru einu grunnskólarnir sem tilnefndir voru með fyrirmyndarverkefni.

Samskipti nemenda í tveimur löndum

Flataskóli átti fjögur af sex verkefnum í flokki grunnskóla og Hofsstaðaskóli tvö. Verkefnið „Lesum, skrifum og tölum saman“ er bókmenntalegs eðlis og er markmið þess að efla læsi og lesskilning, víkkja sjóndeildarhring nemenda auk þess að samþætta ýmsar námsgreinar eins og landafræði, upplýsingatækni, lífsleikni og tungumálanám. Verkefnið fól í sér samskipti nemenda í tveimur bekkjum; á Íslandi og í Englandi.

Skýrt og afmarkað verkefni

Í umsögn um verkefnið segir m.a. að það sýni hvernig hægt sé að flétta notkun upplýsingatækni inn í samstarf á milli nemenda tveggja landa í einföldu og skýrt afmörkuðu verkefni. Þar sem aðeins var um tvo bekki að ræða hafi gefist tækifæri til að skapa persónuleg samskipti á milli nemenda. Það var m.a. gert á "myndfundum" þar sem nemendur gátu rætt saman.

 

Verkefnastjórar voru Kolbrún Svala Hjaltadóttir,  kennsluráðgjafi, Ingibjörg Baldursdóttir bókasafnsfræðingur og Olga G. Snorradóttir, umsjónarkennari í 4. bekk (síðasta vetur).

Skólinn hlaut myndbandsvél að gjöf í viðurkenningarskyni sem er kærkomin viðbót við tækjaeign skólans. Hægt er að lesa nánar um verkefnið á vef Flataskóla.

 

Sjá einnig á vef menntaáætlunar ESB