Hagir og líðan ungmenna 2010
Foreldrar í Garðabæ hafa gott eftirlit með unglingunum sínum, unglingunum semur vel við kennara sína og þeir stunda íþróttir í ríkum mæli. Engu að síður er að finna vísbendingar um aukna neyslu vímuefna á meðal unglinga í niðurstöðum rannsóknar fyrirtækisins Rannsókna og greiningar á högum og líðan ungmenna í Garðabæ 2010. Þetta er viðsnúningur frá því sem mælst hefur frá árinu 2004 en allt frá því ári hefur tíðni reykinga og ölvunar á meðal unglinga verið lægri í Garðabæ en á höfuðborgarsvæðinu í heild og á landinu öllu.
Niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar á opnum fundi skólanefndar í vikunni.
Glærur frá kynningunni.
Í kynningunni voru dregin fram eftirfarandi sex atriði:
Foreldrar og fjölskylda
Hér kom fram að foreldrar í Garðabæ virðast hafa gott eftirlit með unglingunum og setja þeim mörk.
Stríðni
Hér kemur fram að unglingarnir taka síður þátt í stríðni eftir því sem þeir eldast. Sömuleiðis upplifa þeir minni stríðni eftir því sem þeir eldast.
Nám og skóli
Unglingar í Garðabæ virðast vera í landsmeðaltali varðandi líðan í skóla. Aftur á móti semur þeim betur við kennara sína og sjá meiri tilgang í náminu en jafnaldrar á höfuðborgarsvæði og landinu.
Vinna með skóla
Unglingar í Garðabæ vinna síður með skóla og virðist ekki vera í þörf fyrir vasapening eins og jafnaldrar annars staðar.
Íþrótta- og tómstundaiðkun
Ástundun/iðkun unglinga í íþróttum (4x í viku) er mun meiri en annars staðar og hefur vaxið um 20% hjá drengjum og 32% hjá stúlkum síðan 2006. Aftur á móti er þátttaka þeirra í öðru skipulögðu félags- og tómstundastarfi (öðru en íþróttum) ívið minni en á höfðurborgarsv/landinu.
Vímuefnaneysla
Niðurstöður þessa kafla eru umhugsunarverðar og kalla á viðbrögð hagsmunaaðila.
Vímuefnaneysla á höfuðborgarsvæðinu í heild og á landinu öllu hefur verið að stefna niður undanfarin ár. Garðabær hefur verið undir meðaltali höfuðborgarsv/ landsins í mörgum af þessum þáttum allt frá árinu 2004. Nú bregður svo við að vísbendingar finnast um aukningu í Garðabæ, sbr. spurningar um daglegar reykingar í 10. bekk, ölvun síðustu 30 daga í 10. bekk (20% svara já í Garðabæ en 15% á höfuðborgarsv/ landinu) og í 8. bekk. Loks er hassnotkun er að sækja í sig veðrið í 10. bekk 2010.
Fjöldi nemendanna á bak við prósenturnar er:
8. bekkur 132 unglingar
9. bekkur 147 unglingar
10. bekkur 139 unglingar
Lokaglærurnar í kynningunni snúa að framtíð unglinganna, það er því sem gerist frá því í mars í 10. bekk til október í 1. bekk í framhaldsskóla. Í ljós hefur komið að að vorið 2007 höfðu tveir af hverjum tíu nemendum (=20%) orðið ölvaðir við lok 10. bekkjar. Rúmum sex mánuðum síðar eða í október 2007 hafði tæpur helmingur þessa sama árgangs orðið ölvaður en þá voru þessir unglingar komnir í framhaldsskólann.
Samkvæmt upplýsingum frá Rannsóknum og greiningu eru því miður ekki líkur á að þetta mynstur hafi breyst til batnaðar en úr því verður skorið þegar framhaldsskólaskýrslan verður birt á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins í febrúar 2011.
Glærurnar frá kynningunni á niðurstöðum skýrslunnar eru aðgengilegar á vef Garðabæjar undir forvarnir.