19. nóv. 2010

Dagur íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur í skólum Garðabæjar þriðjudaginn 16. nóvember sl.
  • Séð yfir Garðabæ

Dagur íslenskrar tungu sem var þriðjudaginn 16. nóvember sl. var haldinn hátíðlegur í skólum Garðabæjar.

Útidagskrá í Flataskóla

Starfsfólk og nemendur Flataskóla komu saman í útikennslustofu skólans, Vigdísarlundi við enda Stekkjarflatar, til að halda upp á daginn. Þar hlýddu nemendur á upplestur úr verkum Jónasar Hallgrímssonar og lærðu um náttúruunnandann Jónas. Vigdísarlundur var prýddur Íslandslaufum sem nemendur ýmist rituðu á ljóð, náttúrulýsingar, nýyrði og mannanöfn tengd náttúru eða teiknuðu á landslag.

Sérstakur heiðursgestur var söngvaskáldið KK og tók hann lag sitt Kærleikur og tími með nemendum. Dagur íslenskrar tungu er jafnframt dagur umburðarlyndis á mannréttindadagatali UNESCO og var texti lagsins því samstíga yfirskrift dagsins að öllu leyti. 

Við þetta tækifæri fékk skólinn Grænfánann öðru sinni og afhenti Björgólfur Thorsteinsson frá Landvernd umhverfisnefnd Flataskóla fánann. Eftir fánahyllingu fluttu fimmtu bekkingar leikþáttinn Búkollu í tali og tónum í hátíðarsal skólans. 

Dagskrá á sal í Hofsstaðaskóla

Í Hofsstaðaskóla var dagskrá á sal í tilefni af Degi íslenskrar tungu. Hjá eldri nemendum voru atriði frá öllum árgöngum. Nemendur í 5. bekk lásu frumsamin ljóð, nokkrar stúlkur úr 6. bekk röppuðu ljóðin Móðurást og Buxur vesti brók og skór eftir Jónas Hallgrímsson og nemendur í 7. bekk kynntu skáldin Halldór Laxnes, Þórarin Eldjárn og Andra Snæ Magnason og fluttu verk eftir höfundana.

Hjá yngri nemendum sáu 3. bekkingar um dagskrána. Þeir hófu hana á tónlistaratriði, sögðu svo frá Jónasi Hallgrímssyni „listaskáldinu góða“ og lásu loks þjóðsöguna Selshamurinn eftir Jón Árnason. Dagskránni lauk með samsöng þar sem íslensk lög voru sungin undir stjórn Unnar tónmenntakennara.

Spilað og synt í Sjálandsskóla

Í Sjálandsskóla héldu nemendur í 3. og 4. bekk upp á daginn í sundlaug skólans með því að semja ljóð og hengja upp í sundlauginni. Að því loknu fóur þau í boðsund þar sem þau áttu í sameiningu að búa til setningu. Einn í einu úr hverjum hópi synti yfir laugina og fann frauðplaststaf sem passaði í setninguna. Það lið sem var fyrst fékk að fara í fyrstu myndatökuna.

Í unglingadeildinni var deginum fagnað með því að spila spil sem reyna á íslenskukunnáttu; Alias, Fimbulfamb, Krossorðaspilið og Scrabble. Krakkarinr skemmtu sér vel og stóðu sig vel í spilunum.

Íslensk lög sungin í Tónlistarskólanum

Í Tónlistarskóla Garðabæjar var haldið upp á daginn miðvikudaginn 17. nóvember en miðvikudagar eru tónleikadagar í skólanum. Þennan dag komu fram nemendur úr söngdeild skólans og fluttu íslensk lög.

 

Fleiri myndir frá hátíðarhöldum dagsins eru á vefjum skólanna. Á vef Flataskóla er einnig myndband frá dagskránni í Vigdísarlundi.

 

Frá dagskrá Sjálandsskóla á Degi íslenskrar tungu 2010

Þessir spræku krakkar í Sjálandsskóla hafa öll spil á hendi eftir að hafa fundið alla stafina til að mynda þá skemmtilegu setningu.

 

Frá dagskrá á Degi íslenskrar tungu í Hofsstaðaskóla 2010

Í Hofsstaðaskóla komu nemendur saman á sal og skemmtu hver öðrum. Þessir flottu krakkar hafa klætt sig í viðeigandi klæðnað í tilefni dagsins.