16. nóv. 2010

"Brúkum bekki" í Garðabæ

Garðabær býður einstaklingum, fyrirtækjum félögum og öðrum að fjármagna kaup á bekk við einn af göngustígum bæjarins sem verður merktur viðkomandi gefanda
  • Séð yfir Garðabæ

Garðabær tekur þátt í verkefninu ,,að brúka bekki” sem felur í sér hvatningu til eldri borgara til að fara út að ganga. Verkefninu var hrundið af stað af Félagi sjúkraþjálfara í öldrunarþjónustu (FSÖ) sem er undirfélag innan Félags íslenskra sjúkraþjálfara. Tilefnið er 70 ára afmæli síðarnefnda félagsins.

Margar rannsóknir sýna fram á að eldra fólk hreyfir sig ekki nægilega mikið. Með því að hafa hæfilegt bil á milli hvíldarbekkja er auðveldara fyrir fólk á öllum aldri að fara út að ganga og fólk getur verið öruggt um að ofgera sér ekki. Garðabær hefur því hug á að fjölga hvíldarbekkjum við göngustíga og býður bæjarbúum, fyrirtækjum, félagasamtökum og öðrum að taka þátt. 

Byrjað verður í kringum Jónshús og á gönguleið frá Jónshúsi upp í verslunarmiðstöðina við Litlatún og í þjónustu á Garðatorgi. Með þessu er þeim sem lakari eru til gangs og keyra ekki bíl, gert auðveldara að versla í matinn og njóta mannlífsins í bænum. Leiðin frá Jónshúsi að Litlatúni er 1,3 km að lengd auk 300 m á Garðatorg.

Félag eldri borgara í Garðabæ hefur þegar ákveðið að greiða fyrir nokkra bekki. Heildarkostnaður við hvern bekk m/vsk er áætlaður 150 þúsund krónur og mun bærinn sjá um uppsetningu. Hver bekkur sem þannig er styrktur í þessu verkefni verður merktur viðkomandi gefanda.

Nánari upplýsingar gefur Kári Jónsson íþróttafulltrúi Garðabæjar í 617-1561 eða netfangið: karijo@gardabaer.is