5. nóv. 2010

Götumarkaður og tónlistarveisla

Laugardaginn 6. nóv verður haldinn götumarkaður í göngugötunni og fimmtud 11. nóv stígur hljómsveitin Hjálmar á svið í hinni árlegu tónlistarveislu menningar- og safnanefndar
  • Séð yfir Garðabæ

Framundan er mikið um að vera á Garðatorginu í Garðabæ. Laugardaginn 6. nóvember nk. verður haldinn götumarkaður í göngugötunni á Garðatorgi í Garðabæ.  Mikil ásókn hefur verið í að fá borð á markaðnum en í byrjun októbermánaðar var markaðurinn haldinn í fyrsta sinn og tókst vel til.  Hin árlega Tónlistarveisla í skammdeginu  á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar verður haldin að kvöldi til fimmtudaginn 11. nóvember nk.  Í tónlistarveislu ársins stígur hljómsveitin Hjálmar á svið og skemmtir gestum og gangandi. 

 

 

Skemmtileg götumarkaðsstemmning

Ýmis félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar verða með vörur á markaðnum laugardaginn 6. nóvember. Markaðurinn verður opinn frá kl. 11-16. Kór eldri borgara í Garðabæ syngur á markaðnum kl. 14 auk þess sem fjöldi einstaklinga, félagasamtaka og fyrirtækja bjóða nýjar og gamlar vörur og ýmislegt matarkyns til sölu. Verslanir og rekstraraðilar á Garðatorgi standa fyrir götumarkaðinum. Einnig stendur til að hafa jólamarkað á laugardögum í göngugötunni á Garðatorgi þegar nær dregur jólum eða frá og með laugardeginum 27. nóvember nk.  Allir eru velkomnir á markaðinn á laugardaginn.


 

Tónlistarveisla í skammdeginu - hljómsveitin Hjálmar

Hin árlega Tónlistarveisla í skammdeginu á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar verður haldin fimmtudagskvöldið 11. nóvember nk. kl. 21.00 í göngugötunni á Garðatorginu. Í tónlistarveislu ársins er það hljómsveitin Hjálmar sem treður upp á torginu. Að venju verður reynt að skapa skemmtilega kaffihúsastemningu,  borðum og stólum raðað upp á torginu og gestir geta keypt sér veitingar. Listamenn úr félaginu Grósku verða með ,,trönusýningu" á torginu við þetta tækifæri. Tónleikarnir standa í um eina og hálfa klukkustund. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir á Garðatorgið. 

Sjá nánari upplýsingar um tónlistarveisluna hér í dagbókinni.

 

 


Hljómsveitin Hjálmar