Björgunarhundar í þjálfun hjá HSG
Í byrjun vikunnar var undirritaður samningur milli Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Hjálparsveitar skáta í Garðabæ um aðkomu HSG að Íslensku alþjóðabjörgunarsveitinni. Meginatriði samningsins er að Hjálparsveitin verði innan þriggja ára búin að þjálfa sex leitarhunda sem fara á útkallslista sveitarinnar og eiga þeir að vera sérþjálfaðir í leit í rústum.
HSG mun fá til sín áhugasama aðila úr báðum hundasveitum félagsins, BHSÍ og Leitarhundum, til að taka þátt í verkefninu. Ljóst er að þetta styrkir enn frekar Íslensku alþjóðabjörgunarsveitina og eykur til muna möguleikana á að finna týnd og grafin fórnarlömb í rústum mannvirkja.
Myndin er fengin af vef Hjálparsveitar skáta í Garðabæ. Á henni má sjá Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóra SL og nokkra tvífætta sem ferfætta meðlimi HSG. Sjá einnig nánari umfjöllun í frétt á heimasíðu Hjálparsveitarinnar, www.hjalparsveit.is