13. okt. 2010

Náttúrufræðistofnun flytur

Starfsemi Náttúrufræðistofnunar Íslands flytur í nýtt hús í Urriðaholti í Garðabæ á næstu dögum
  • Séð yfir Garðabæ

Starfsemi Náttúrufræðistofnunar Íslands flytur í nýtt hús í Urriðaholti í Garðabæ á næstu dögum. Verið er að leggja lokahönd á frágang innanhúss í húsinu sem stendur vestast í Urriðaholti og er 3500 fermetrar að stærð. Bæjarstjóri og nokkrir starfsmenn bæjarins heimsóttu nýtt hús Náttúrufræðistofnunar í gær en með því verður gerbylting á aðstöðu stofnunarinnar til rannsókna og varðveislu muna.

Sérstök áhersla á varðveislu

Í nýja húsinu í Urriðaholti verður nýjustu tækni beitt til að tryggja varðveislu náttúrugripa stofnunarinnar, sem margir hverjir eru mjög verðmætir og sjaldgæfir. Sérstök áhersla er lögð á safnskála í húsinu þar sem gripasöfnin verða varðveitt.  Safnskálarnir uppfylla strangar öryggiskröfur og eru m.a. rykþéttir með nákvæmum loftræsti-, hita- og rakastýribúnaði.

Í húsinu verða einnig sérhæfðar rannsóknastofur, bókasafn, fundarsalir og önnur aðstaða sem stofnunin þarf á að halda fyrir starfsemi sína

Náttúrufræðistofnun Íslands í Reykjavík og á Akureyri starfa rúmlega 50 manns við margvíslegar rannsóknir og vöktun á náttúru landsins. Þá sinnir stofnunin ráðgjöf um landnotkun og nýtingu náttúruauðlinda sem og fræðslu til skóla og almennings.


Frá heimsókn í nýtt hús Náttúrufræðistofnunar Íslands í október 2010

Bæjarstjóri ásamt nokkrum starfsmönnum bæjarins og aðstandendum byggingarinnar.
Utan á húsinu er glerhjúpur sem skapar náttúrulega loftræstingu og gerir starfsfólki kleift að hafa opna glugga hvernig sem viðrar.

Frá heimsókn í nýtt hús Náttúrufræðistofnunar Íslands í október 2010

Fallegt útsýni yfir Urriðaholtið er úr nýja húsinu.