1. okt. 2010

Kammermúsík í Garðabæ

Hallveig Rúnarsdóttir og Gerrit Schuil koma fram á fyrstu tónleikunum í klassískri tónleikaröð, sunnudaginn 3. október kl. 16. Menningar- og safnanefnd Garðabæjar stendur fyrir tónleikaröðinni haustið 2010 og vorið 2011 í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju í Garðabæ. Listrænn stjórnandi er píanóleikarinn Gerrit Schuil sem hefur fengið til liðs við sig úrvalslið tónlistarfólks.
  • Séð yfir Garðabæ

Menningar- og safnanefnd Garðabæjar stendur fyrir klassískri tónleikaröð haustið 2010 og vorið 2011 í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju í Garðabæ. Listrænn stjórnandi er píanóleikarinn Gerrit Schuil sem hefur fengið til liðs við sig úrvalslið tónlistarfólks. 

Tónlistarmenn sem taka þátt í tónleikaröðinni á þessu ári eru Hallveig Rúnarsdóttir sópran og  Auður Gunnarsdóttir sópran. Á næsta ári heldur tónleikaröðin áfram og þá stíga á svið Þóra Einarsdóttir sópran, Ágúst Ólafsson baritón og píanóleikarinn Martijn van den Hoek.

 

Tónleikar sunnudaginn 3. október

Fyrstu tónleikarnir verða haldnir sunnudaginn 3. október nk. kl. 16:00 í Kirkjuhvoli.  Þá stíga á svið Hallveig Rúnarsdóttir sópran og Gerrit Schuil. Á tónleikunum verða flutt verk eftir Hugo Wolf úr ,,Mörike-Lieder” og  ,,Les nuits d´été” eftir Hector Berlioz.

 

 

Miðasala fer fram á tónleikastað og almennt miðaverð er 1700 kr, miðaverð fyrir eldri borgara og námsmenn er 1200 kr.

 

Um tónlistarmennina

Hallveig Rúnarsdóttir hefur komið fram sem einsöngvari víða um heim og hér á landi, sungið einsöng í kirkjulegum verkum t.d. í Hallgrímskirkju, Áskirkju og Vídalínskirkju. Hún hefur margoft komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands, flutt einsöngskantötur eftir Mozart og Bach með Sinfóníuljómsveit áhugamanna og sungið með kammerhópnum Caput.  Hallveig hefur sérstaklega verið virk í flutningi nýrrar tónlistar og hefur frumflutt mörg ný íslensk verk, t.d. á Listahátíð í Reykjavík og á Sumartónleikum í Skálholti.

 

Gerrit Schuil hefur komið fram á tónleikum viða um Evrópu, Bandaríkin og í Asíu. Í nokkur ár stjórnaði Gerrit hljómsveitum hollenska útvarpsins sem og hann hefur einnig stjórnað fjölda annarra evrópskra og amerískra hljómsveita bæði á tónleikum og í óperuuppfærslum. Gerrit settist að á Íslandi árið 1992 og hefur verið leiðandi í tónlistarlífi landsins og haldið fjölda tónleika, stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands, Norðurlands, Kammersveit Reykjavikur og uppfærslum Íslensku óperunnar. Þá hefur hann stýrt tónlistarhátiðum og leikið á geisladiskum með mörgum af bestu söngvurum og hljóðfæraleikurum landsins. Gerrit er einnig kennari hjá Listaháskóla Íslands og Söngskóla “Sigurðar Demetz”.

 

Í dagbókinni á heimasíðu Garðabæjar eru nánari upplýsingar um tónleikaröðina.