1. okt. 2010

Sjálfboðaliðar óskast

Deiglan auglýsir eftir sjálfboðaliðum til að taka þátt í fjölbreyttu starfi sem er miðað að þörfum fólks í atvinnuleit.
  • Séð yfir Garðabæ

Deiglan auglýsir eftir sjálfboðaliðum til að taka þátt í fjölbreyttu starfi sem er miðað að þörfum fólks í atvinnuleit. Garðabær og Hafnarfjarðarbær standa ásamt Rauða kross deildunum í sveitarfélögunum tveimur að rekstri Deiglunnar í húsnæði Rauða krossins við Strandveg í Hafnarfirði. Deiglan bíður uppá viðburði 3 daga í viku til að byrja með, það er á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum frá kl 10:00 til 15:00.

Hjálpar til í atvinnuleit

Guðrún Ólafsdóttir er verkefnastjóri Deiglunnar en hún er nú að auglýsa eftir sjálfboðaliðum sem vilja leggja starfinu lið.  "Eitt af því besta sem hægt er að gera í atvinnuleit er að vera virkur í starfi eins og því sem Rauði krossinn býður upp á. Það hefur sýnt sig að þeir sem að vinna sjálfboðavinnu meðan á atvinnuleitinni stendur eru líklegri til að fá vinnu en aðrir með sömu menntun, reynslu og aldur," segir Guðrún og bætir við "meðal annars vegna þess að þegar atvinnuleitandi hefur verið mánuði eða jafnvel ár frá vinnu gefur það góða raun að hafa ný og fersk meðmæli frá þeim tíma sem hann er í atvinnuleit."

Þörf fyrir margar hendur

Guðrún segir að í Deiglunni sé þörf fyrir starfskrafta af ýmsu tagi,  t.d. fyrir fólk sem vill taka að sér tiltekna viðburði, sjá um kynningarmál Deiglunnar og fræða aðra um sitt svið með fyrirlestrahaldi. Starfið er ávallt í þróun og það eru þeir sem að koma að starfinu sem móta það með áhuga sínum og getu.

 

Áhugasömum er bent á að hafa sambandvið Guðrúnu í netfangið: gudruno@redcross.is .

 

Dagskrá Deiglunnar er á vef Garðabæjar. Starfið er öllum opið og þátttakendum að kostnaðarlausu.