10. feb. 2014

Vel heppnuð Safnanótt

Föstudaginn 7. febrúar var fjölbreytt dagskrá í boði í söfnum Garðabæjar í tilefni af Safnanótt. Þetta var í fimmta sinn sem söfn í Garðabæ tóku þátt í Safnanótt sem er hluti af Vetrarhátíð.
  • Séð yfir Garðabæ

Föstudaginn 7. febrúar var fjölbreytt dagskrá í boði í söfnum Garðabæjar í tilefni af Safnanótt.  Þetta var í fimmta sinn sem söfn í Garðabæ tóku þátt í Safnanótt sem er hluti af Vetrarhátíð.  Á Safnanótt var opið hús í burstabænum Króki og fjölmargir lögðu leið sína á Garðaholt til að skoða Krók. Bókasafn Garðabæjar var með dagskrá í húsakynnum sínum á Garðatorgi og einnig í Álftanesútibúinu sem er staðsett í Álftanesskóla. Nemendur úr samspilshópi Tónlistarskóla Garðabæjar spiluðu fyrir gesti í Álftanesútibúinu og einnig stigu þar á stokk nemendur af leiklistardeild Fjölbrautaskólans í Garðabæ og fluttu skemmtilegan leikspuna.  Leiklistarnemendurnir heimsóttu einnig safnið á Garðatorgi þetta kvöld. 

Ljósmyndasýning í bókasafninu

Í tilefni af Safnanótt var sett upp ljósmyndasýningin Fólk og umhverfi í bókasafninu á Garðatorgi. Þeir sem komust ekki í safnið á Safnanótt geta áfram skoðað sýninguna sem stendur til 15. apríl í bókasafninu.  Kvennakór Garðabæjar og Ingibjörg Guðjónsdóttir bæjarlistamaður og kórstjóri glöddu gesti bókasafnsins með ljúfum tónum um kvöldið.

Vigdís Finnbogadóttir var með leiðsögn í Hönnunarsafninu

Í Hönnunarsafninu var boðið upp á leiðsagnir um sýninguna Ertu tilbúin frú forseti? sem er ný sýning í safninu.  Það kom gestum skemmtilega á óvart að Vigdís Finnbogadóttir var með fyrri leiðsögnina um kvöldið og fullt var út úr dyrum í Hönnunarsafninu á Safnanótt. Um 400 gestir lögðu leið sína í safnið á Safnanótt.  Sýningin verður aðalsýning Hönnunarsafnsins fram á næsta haust.  Hér má sjá nokkrar myndir á fésbókarsíðu Hönnunarsafnsins.