3. sep. 2010

Afmælishátíð á Vífilsstöðum

Haldið verður upp á 100 ára afmæli Vífilsstaða laugardaginn 4. september kl. 13-16 með sögusýningu og málþingi á Vífilsstöðum. Einnig verður boðið upp á skemmtidagskrá utan dyra og grillaðar pylsur handa gestum sýningarinnar.
  • Séð yfir Garðabæ

Haldið verður upp á 100 ára afmæli Vífilsstaða laugardaginn 4. september með sögusýningu og málþingi á Vífilsstöðum. Einnig verður boðið upp á skemmtidagskrá utan dyra og grillaðar pylsur handa gestum sýningarinnar.

 

Dagskrá afmælishátíðarinnar í pdf-skjali.


Aðalbyggingin á Vífilsstöðum var tekin í notkun árið 1910 og var þá eitt stærsta hús landsins. Spítalann teiknaði Rögnvaldur Ólafsson sem hefur verið kallaður fyrsti arkitekt landsins en hann var einnig byggingarmeistari þess.

Sérstakt samfélag

Berklar voru afar skæður sjúkdómur hér á landi á fyrri hluta 20. aldarinnar og þá voru engin lyf til við þeim. Sjúkdómurinn lagðist þungt á ungt fólk og því var mikið af ungu fólki samankomið á Vífilsstöðum þar sem það var einangrað frá umheiminum jafnvel árum saman. Á Vífilsstöðum varð því til sérstakt samfélag þar sem gleði og sorg héldust í hendur.

Mörg framfaramál urðu að veruleika á Vífilsstöðum, t.d. i búskaparháttum þar sem brautryðjandastarf var unnið við ræktun og rekið myndarlegt kúabú. Sjúklingar stóðu einnig fyrir fjölbreyttu skemmti- og menningarlífi og á Vífilsstöðum var m.a. rekin fyrsta einkarekna útvarpsstöð landsins. Saga Vífilsstaða er því afar merkileg fyrir margra hluta sakir.

Fallegt umhverfi Vífilsstaða lék stórt hlutverk í því samfélagi sem þar myndaðist. Vinsælt var að fara út á bát á vatninu og þeir sjúklingar sem voru rólfærir gistu gjarnan í tjöldum í hraunbollum á sumrin og er enn hægt að sjá mynjar um tjaldbúðir þar.

Fjölbreytt afmælishátíð

Fjölbreytt dagskrá verður á Vífilsstöðum á laugardaginn í tilefni dagsins. Inni í húsinu verður sögusýning þar sem sýndar verða gamlar ljósmyndir frá Vífilsstöðum og hægt verður að skoða gömul lækningatæki og hvernig sjúkrastofur litu út á fyrri hluta aldarinnar. Í fundarsal verður málþing þar sem m.a. verður sagt frá sögu berkla á Íslandi og fyrrverandi sjúklingar segja frá mannlífinu á Vífilsstöðum. Einnig verður boðið upp á leiðsögn um landareignina, siglingar á vatninu, hoppukastala og grillaðar pylsur.

 

Að afmælisnefndinni sem hefur unnið að undirbúningi hátíðarinnar standa: Garðabær, Landspítalinn, Hrafnista, Oddfellow-reglan, SÍBS og velunnarar Vífilsstaða.

 

Í Fréttablaðinu í gær, fimmtudaginn 2. september var viðtal við Pétur Magnússon, forstjóra Hrafnistu sem hefur jafnframt verið formaður afmælisnefndarinnar.

 

Sýnishorn af gömlum ljósmyndum sem hægt verður að skoða á sögusýningunni.

Frá Vífilsstöðum