10. feb. 2014

Unnið á klaka á sparkvöllum

Hætta er á tjóni vegna kals þar sem svellalög eru á túnum og hafa verið í óvenju langan tíma. Um þessar mundir hefur sérhæft tæki, sem er venjulega notað til götunar á golf- og knattspyrnuvöllum, verið tekið í notkun hjá bænum við
  • Séð yfir Garðabæ

Hætta er á tjóni vegna kals þar sem svellalög eru á túnum og hafa verið í óvenju langan tíma. Um þessar mundir hefur sérhæft tæki, sem er venjulega notað til götunar á golf- og knattspyrnuvöllum, verið tekið í notkun hjá bænum við að gata klaka á sparkvöllum og reyna þannig að koma í veg fyrir stórtjón.

Þegar götunartækið hefur farið yfir grassvæðin hefur komið upp nokkuð mikil ýldu- eða rotnunarlykt sem sýnir hversu brýn þörfin er á þessum aðgerðum. Í kjölfar götunartækisins er farið yfir svæðin á traktor með snjótönn sem skefur upp mesta klakann sem götunartækið hefur losað.

Smári Guðmundsson, garðyrkjustjóri Garðabæjar segir að þar sem kostnaður við að endurheimta tún sem hafi orðið fyrir kali sé mikill sé án nokkurs vafa reynandi að bjarga sem mestu þótt nokkur kostnaður hljótist af þessum aðgerðum.  "Við viljum öll losna við klakann sem fyrst ," segir Smári.