25. ágú. 2010

Skólastarf hafið

Kennsla er hafin í grunnskólum Garðabæjar skólaárið 2010-2011. Yfir 1500 börn sækja grunnskóla í Garðabæ í vetur.
  • Séð yfir Garðabæ

Skólastarf er nú hafið í grunnskólunum í Garðabæ. Grunnskólarnir voru settir þriðjudaginn 24. ágúst og kennsla hófst ýmist samdægurs eða daginn eftir. Mikil spenna fylgir gjarnan fyrstu skóladögunum ekki síst hjá þeim sem eru að hefja skólagöngu sína, eins og fram kemur í frétt á vef Hofsstaðaskóla. Á vefjum allra skólanna eru myndir frá skólasetningunni og sagt frá upphafi skólastarfs.

Yfir 1500 grunnskólabörn

Nemendur í grunnskólum Garðabæjar eru nú 1.348. Hofsstaðaskóli er fjölmennasti skólinn en þar eru 426 nemendur nú í upphafi skólaársins í 1.-7 bekk. Garðaskóli er næst fjölmennastur með 401 nemanda en þar eru nemendur í 8.-10 bekk. Í Flataskóla, sem kennir 1.-7. bekk, eru 273 nemendur. Í Sjálandsskóla eru 248 nemendur og er skólinn nú í fyrsta sinn með nemendur frá 1. bekk og upp í 10. bekk.

Þá eru 173 nemendur í Barnaskóla Hjallastefnunnar og 45 í Alþjóðaskólanum en þessir tveir skólar eru einkareknir. Í allt eru því yfir 1500 grunnskólabörn sem sækja skóla í Garðabæ í vetur.

Grunnskólarnir eru jafnframt stórir vinnustaðir en í grunnskólum Garðabæjar starfa samtals 215 starfsmenn, þar af 129 kennarar.

Fréttir og myndir á vefjum skólanna

Í grunnskólunum er lögð mikil áhersla á góða samvinnu við heimili. Foreldrar eru hvattir til að fylgjast með á vefjum skólanna en þar eru birtar fréttir og myndir úr skólastarfinu og sagt frá því sem er á döfinni hverju sinni.

 

Vefirnir eru á slóðunum:

 

www.hjalli.is/barnaskolinn

www.internationalschool.is.

www.flataskoli.is

www.hofsstadaskoli.is

www.gardaskoli.is

www.sjalandsskoli.is