20. ágú. 2010

Grunnskólafólk frætt um eineltismál

Öllu starfsfólki grunnskóla Garðabæjar var í morgun boðið á námskeið um eineltismál. Um 200 manns, bæði kennarar og aðrir starfsmenn skólanna sóttu námskeiðið
  • Séð yfir Garðabæ

Öllu starfsfólki grunnskóla Garðabæjar var í morgun boðið á námskeið um eineltismál. Námskeiðið var haldið í Flataskóla og það sóttu um 200 manns, bæði kennarar og aðrir starfsmenn skólanna. Leiðbeinandi á námskeiðinu var Ingibjörg Auðunsdóttir, sérfræðingur við miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri.

 

Elín Guðmundsdóttir, aðstoðarskólastjóri í Flataskóla á sæti í stýrihóp gegn einelti í Garðabæ sem átti frumkvæði að námskeiðinu. Elín sagði að Inginbjörg hefði náð vel til starfsfólksins og að allur hópurinn hefði verið mjög áhugasamur um efnið. "Fyrirlestur Ingibjargar heitir Velferð, jafnrétti og vellíðan nemenda í skóla. Í honum fjallar hún m.a. sérstaklega um einelti stúlkna en hingað til hefur meira verið einblínt á einelti á meðal drengja. Ástæðan er sú að einelti á meðal stúlkna kemur öðruvísi fram og það er oft erfiðara að átta sig á því," segir Elín.

 

Námskeiðið um einelti er liður í undirbúningi starfsfólks skólanna fyrir komandi skólavetur en skólasetning verður í grunnskólum Garðabæjar nk. þriðjudag, 24. ágúst.

Frá námskeiði um eineltismál í ágúst 2010

Ingibjörg Auðunsdóttir, sérfræðingur við Háskólann á Akureyri fræddi starfsfólk grunnskólanna í Garðabæ um eineltismál.