7. feb. 2014

Safnanótt í Garðabæ

Föstudaginn 7. febrúar, er opið hús í Hönnunarsafni Íslands, burstabænum Króki á Garðaholti, Bókasafni Garðabæjar á Garðatorgi og á Álftanesi frá kl. 19-24 í tilefni af Safnanótt. Garðbæingar og aðrir íbúar á höfuðborgarsvæðinu eru hjartanlega velkomnir í heimsókn á söfnin.
  • Séð yfir Garðabæ

Föstudaginn 7. febrúar, er opið hús í Hönnunarsafni Íslands, burstabænum Króki á Garðaholti, Bókasafni Garðabæjar á Garðatorgi og á Álftanesi frá kl. 19-24 í tilefni af Safnanótt.  Garðbæingar og aðrir íbúar á höfuðborgarsvæðinu eru hjartanlega velkomnir í heimsókn á söfnin.  Fjölbreytt dagskrá er í boði fyrir alla aldurshópa. 

Leiðsögn í Hönnunarsafninu kl. 20 og kl. 22

Í Hönnunarsafni Íslands á Garðatorgi er boðið upp á leiðsögn um sýninguna Ertu tilbúin frú forseti? kl. 20 og kl. 22 um kvöldið. Á sýningunni er fjölbreytt úrval fatnaðar og fylgihluta frú Vigdísar Finnbogadóttur fyrrum forseta Íslands. Á 16 ára forsetatíð ruddi Vigdís ekki aðeins braut kvenna til nýrra metorða í vestrænum samfélögum, heldur stóð hún frammi fyrir því að móta hefð um klæðaburð fyrir konu í slíku embætti. 

Bókasafn Garðabæjar - Garðatorgi 

Í bókasafni Garðabæjar á Garðatorgi er hægt að skoða nýuppsetta ljósmyndasýningu er nefnist Fólk og umhverfi.  Þar eru sýndar gamlar myndir í eigu bókasafnsins og Garðabæjar. 
Kl.  19:30     Leikið af fingrum fram – leikspuni fyrir alla fjölskylduna
Nemendur af leiklistarbraut Fjölbrautaskólans í Garðabæ verða með skemmtilegan leikspuna fyrir fólk á öllum aldri.
Kl. 21:00   Ljúfir tónar bæjarlistamanns Garðabæjar og kórkvenna
Ingibjörg Guðjónsdóttir bæjarlistamaður og Kvennakór Garðabæjar flytja nokkur vel valin lög fyrir gesti og gangandi.

Bókasafn Garðabæjar – útibú Álftanesi, Álftanesskóla v/ Eyvindarstaðaveg, opið hús kl. 19:00-24:00

Kl.  19:30  Tónlistaratriði nemenda í Tónlistarskóla Garðabæjar og Álftanesskóla
Samspilshópur nemenda úr Tónlistarskóla Garðabæjar á Álftanesi og stúlkur úr Álftanesskóla flytja nokkur lög fyrir gesti og gangandi
Kl. 21:00  Leikið af fingrum fram – leikspuni fyrir alla fjölskylduna
Nemendur af leiklistarbraut Fjölbrautaskólans í Garðabæ verða með skemmtilegan leikspuna fyrir fólk á öllum aldri.

Burstabærinn Krókur á Garðaholti, opið hús kl. 19:00-24:00

Krókur á Garðaholti er lítill bárujárnsklæddur burstabær sem var endurbyggður úr torfbæ árið 1923.  Bílastæði við samkomuhúsið á Garðaholti. Leiðsögn um húsið og sagt frá svæðinu í kring.

Sjá einnig dagskrá Vetrarhátíðar, www.vetrarhatid.is og dagskrá í Álftaneslaug á Sundlauganótt laugardaginn 15. febrúar.