21. júl. 2010

Jöfn skipting á milli kynja í nefndum

Sæti í bæjarstjórn, bæjarráði og nefndum á vegum Garðabæjar skiptast jafnt á milli karla og kvenna á nýju kjörtímabili.
  • Séð yfir Garðabæ

Sæti í bæjarstjórn, bæjarráði og nefndum á vegum Garðabæjar skiptast jafnt á milli karla og kvenna á nýju kjörtímabili. Alls eru sæti aðalmanna 76 og eru 38 þeirra skipuð körlum og 38 konum. Hlutföllin breytast lítið þótt horft sé bæði til aðal- og varamanna en þá skipa karlar 77 sæti og konur 75.

Í bæjarstjórn sitja fimm karlar og tvær konur en kynjahlutföllin jafnast út þegar horft er til allra nefnda bæjarins. Í þeirri samantekt sem hér fylgir eru taldir karlar og konur í bæjarstjórn, bæjarráði og 14 nefndum á vegum bæjarstjórnar. Í samantektinni sést að kynjahlutföll þeirra sem starfa í nefndum á vegum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar eru nokkuð jöfn en að þrír af hverjum fjórum sem starfa á vegum stjórnmálasamtakanna Fólkið í bænum eru konur. Fleiri karlar eru formenn nefnda en konur eða 10 á móti 6.

Kosið var í nefndir á fundi bæjarstjórnar 16. júní sl. Þegar horft er á tölur um fjölda nefndarmanna er rétt að hafa í huga að hver einstaklingur getur verið í fleiri en einni nefnd. Því eru einstaklingarnir á bak við tölurnar færri en fjöldi sæta í nefndum bæjarstjórnar.

Kynjahlutföll í nefndum 2010-2014, samantekt.