28. maí 2010

Velkomin í Hönnunarsafnið

Hönunarsafn Íslands að Garðatorgi 1 var opnað með hátíðlegri athöfn í gær. Fyrsta sýning safnsins í nýju húsnæði heitir "Úr hafi til hönnunar" en á henni eru fjölbreyttir munir úr roði og fiskleðri eftir innlenda og erlenda hönnuði
  • Séð yfir Garðabæ

Hönnunarsafn Íslands var opnað formlega í gær fimmtudaginn 27. maí að Garðatorgi 1. Um leið var opnuð fyrsta sýning þess í nýju húsnæði sem kallast "Úr hafi til hönnunar".

Meðal gesta við opnunina voru forseti Íslands Hr. Ólafur Ragnar Grímsson og fyrrverandi forseti landsins frú Vigdís Finnbogadóttir. Forsetarnir lýstu ánægju bæði með sýninguna og húsnæðið sjálft en Kanon arkitektar eiga veg og vanda að endurbótum þess.

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra opnaði sýninguna og fjallaði þá m.a. um mikilvægi hönnunar og hve stór þáttur hönnun væri orðinn í lífi nútímafólks. Hún sagðist ánægð með að safnið væri komið í þetta glæsilega húsnæði sem hæfði vel starfsemi þess. Erling Ásgeirsson, stjórnarformaður Hönnunarsafns Íslands ávarpaði einnig gesti opnunarinnar. Hann fór yfir verkefni safnsins og gaf innlit í framtíðarsýn þess ásamt því að tala um stefnu safnsins varðandi safneign og hlutverk þess í að miðla hönnunarsögunni.

Hönnunarsafn Íslands hefur slitið barnsskónum, er orðið safn meðal safna á höfuðborgarsvæðinu og mun standa fyrir reglulegu sýningarhaldi héðan í frá.

Safnið verður opið alla daga nema mánudaga frá 12-17. Í boði verður alltaf nýmalað kaffi og notaleg stemmning.

Upplýsingar um sýningar safnsins er að finna á vefsíðunni www.honnunarsafn.is  

Auglýsing um sýninguna Úr hafi til hönnunar.

Frá opnun Hönnunarsafns Íslands að Garðatorgi 1 27. maí 2010

Erling Ásgeirsson, stjórnarformaður Hönnunarsafnsins fræddi gesti opnunarinnar um verkefni safnsins og framtíðarsýn þess.

Frá opnun Hönnunarsafns Íslands að Garðatorgi 1 27. maí 2010

Fjölmenni var við opnunina.

Frá opnun Hönnunarsafns Íslands að Garðatorgi 1 27. maí 2010

Harpa Þórsdóttir, forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands og Gunnar Einarsson bæjarstjóri.

Frá opnun Hönnunarsafns Íslands að Garðatorgi 1 27. maí 2010

Frú Vigdís Finnbogadóttir var meðal gesta við opnunina.

Frá opnun Hönnunarsafns Íslands að Garðatorgi 1 27. maí 2010

Gestir skoðuðu sýninguna Úr hafi til hönnunar en á henni eru fjölbreyttir gripir úr roði eftir íslenska og erlenda hönnuði.

Frá opnun Hönnunarsafns Íslands að Garðatorgi 1 27. maí 2010

Húsið að Garðatorgi 1 eftir vel heppnaðar endurbætur.