11. maí 2010

Viðurkenningar fyrir hreinsunarstörf

Þrjár viðurkenningar voru veittar á lokahátíð hreinsunarátaksins sem haldin var á Garðatorgi föstudaginn 7. maí. Viðurkenningarnar eru veittar fyrir lofsvert framtak í hreinsunarátakinu.
  • Séð yfir Garðabæ

Þrjár viðurkenningar voru veittar á lokahátíð hreinsunarátaksins sem haldin var á Garðatorgi föstudaginn 7. maí. Viðurkenningarnar eru veittar fyrir lofsvert framtak í hreinsunarátakinu. Alls fengu 14 hópar styrki vegna þátttöku í átakinu og er þeim öllum þakkað fyrir gott starf til fegrunar bæjarins.

 

Þeir sem fengu viðurkenningu í ár eru Hofsstaðaskóli, fimleikadeild Stjörnunnar og íbúar í Garðahrauni.

 

Hreinsunarátakið hófst formlega við Hofsstaðaskóla þegar nemendur í 2. BSt og 6. ÖM ásamt bæjarstjóra, bæjarfulltrúum, nemendum úr FG og fleirum hófu að hreinsa svæðið meðfram Arnarneslæk. Nemendur í  2. og 6. bekk skólans létu ekki þar við sitja heldur luku þeir við að hreinsa meðfram Arnarneslæknum alveg niður að sjó á næstu dögum. Tveir og tveir bekkir unnu saman þ.e. einn 6. bekkur og einn 2. bekkur í litlum hópum. Nemendur í 4. bekk skólans tóku líka þátt og hreinsuðu trjábeðið meðfram Bæjarbrautinni á milli Akralands og Hæðahverfis.

 

Um 30 stúlkur úr fimleikadeild Stjörnunnar og foreldrar þeirra tóku sig saman og hreinsuðu svæðið í kringum Aktu taktu og niður í Grundir.   
Hópurinn hélt grillveislu á eftir og ákvað að afgangurinn af hvatningarstyrknum skyldi renna í sameiginlegan sjóð fyrir keppnishópa fimleikadeildarinnar.

 

Allir íbúar í Garðahrauni tóku höndum saman og hreinsuðu til í götunum í hverfinu og einnig í hrauninu í kring. Lóðir voru hreinsaðar, götur sópaðar og íbúar gengu um hraunið þar sem mikið rusl hafði safnast fyrir í gjótum. Fulltrúi íbúa segir að þátttakan hafi verið frábær og bæði íbúar og væntanlegir íbúar tekið þátt. Framtakinu verður fagnað með grillveislu síðar í mánuðinum.

 

Umhverfisnefnd bauð gestum og gangandi upp á vöfflur og kaffi á lokahátíðinni.

 

Frá lokahátíð hreinsunarátaks 2010

Margrét Harðardóttir, skólastjóri Hofsstaðaskóla ásamt umhverfisfulltrúa úr röðum nemenda tók við viðurkenningarskjali fyrir hönd skólans. Á myndinni eru einnig Júlía Ingvarsdóttir, formaður umhverfisnefndar og Páll Hilmarsson, forseti bæjarstjórnar.

Frá lokahátíð hreinsunarátaks 2010

Júlía og Páll með fríðum flokki stúlkna úr fimleikadeild Stjörnunnar.

Frá lokahátíð hreinsunarátaks 2010

Þessi duglega stúlka fékk að taka við viðurkenningarskjalinu fyrir hönd íbúa í Garðahrauni.

Reynir Jónasson skemmti gestum lokahátíðarinnar með harmonikkuleik.


Gestir hátíðarinnar þáðu vöfflur sem nefndarmenn í umhverfisnefnd bökuðu á staðnum.

 



Frá Garðatorgi.