30. jan. 2014

Áhrifarík fræðsla um einelti

Nemendur í 5., 6. og 7. bekk Hofsstaðaskóla og foreldrar þeirra fengu nýlega áhrifaríka fræðslu um einelti, afleiðingar þess og hvernig hægt er að bregðast við því.
  • Séð yfir Garðabæ

Nemendur í 5., 6. og 7. bekk Hofsstaðaskóla og foreldrar þeirra fengu nýlega áhrifaríka fræðslu um einelti, afleiðingar þess og hvernig hægt er að bregðast við því.

Að mæta hatri með ást

Nemendurnir hlýddu á Selmu Hermannsdóttur, nemanda í FG, sem kom og sagði sögu sína. Selma, sem fæddist með skarð í vör, hefur orðið fyrir einelti frá unga aldri. Selma lýsti eineltinu en lagði þó mesta áherslu á það viðhorf sem hún hefur tileinkað sér til gerandanna. Faðir hennar, Hermann Jónsson, hefur lagt áherslu á að hún stjórni því sjálf hvernig hún bregst við því sem mætir henni, best sé að mæta hatri með ást og að koma vel fram við alla, jafnvel þá sem koma illa fram við hana.

Á vef Hofsstaðaskóla segir að þessi sterka og hugrakka stúlka hafi snert strengi í hjörtum allra sem á hlýddu, jafnt nemenda sem starfsmanna. "Hún er góð fyrirmynd og flytur frábæran boðskap. Krakkarnir voru líka duglegir að spyrja og fengu skýr svör."

Fræðsla fyrir foreldra

Að kvöld sama dags var haldinn fræðslufundur fyrir foreldra. Þangað mætti faðir Selmu, Hermann Jónsson og sagði frá reynslu sinni sem faðir barns sem lent hefur í einelti. Hermann hefur lagt áherslu á að byggja dóttur sína upp og gera hana að sterkum einstaklingi sem hefur svo sannarlega skilað sér. Hermann sagði frá þeim leiðum sem hann hefur farið í uppeldinu og hvernig þau feðgin tóku á vandamálinu í sameiningu. 

Netnotkun barna

Á fræðslufundinum ræddi Hafþór Birgisson einnig um netheima og netnotkun barna og ungmenna og benti á ýmsar gagnlegar leiðir fyrir foreldra til að stýra netnotkun barna sinna.

Þriðjudaginn 28. febrúar verður Hafþór með fyrirlestur um netnotkun fyrir nemendur í 4. bekk Hofsstaðaskóla.

Myndir frá fræðslu Selmu, Hermanns og Hafþórs eru á vef Hofsstaðaskóla.