22. apr. 2010

Listadagar barna og ungmenna

Listadagar barna og ungmenna í Garðabæ eru nú haldnir í fjórða sinn og að þessu sinni í lok apríl. Megindagskráin fer fram síðustu vikuna í apríl en nokkrar stofnanir hafa tekið forskot á listadagana og í þessari viku hafa verið haldnir fjölmargir tónleikar í Tónlistarskóla Garðabæjar.
  • Séð yfir Garðabæ

Listadagar barna og ungmenna í Garðabæ eru nú haldnir í fjórða sinn og að þessu sinni í lok apríl.  Megindagskráin fer fram síðustu vikuna í apríl en nokkrar stofnanir hafa tekið forskot á listadagana og í þessari viku hafa verið haldnir fjölmargir tónleikar í Tónlistarskóla Garðabæjar.

Framundan er fjörug dagskrá í Garðabæ sem fer fram að miklu leyti í skólum bæjarins en einnig verða sýningar utan skólatíma, má þar nefna listsýningar á Garðatorgi, íþróttamiðstöðinni Ásgarði og IKEA.  Gestir og gangandi eru velkomnir á opin hús í skólum bæjarins og einnig á aðra viðburði listadaga barna og ungmenna.

DAGSKRÁ LISTADAGA


,,Leikandi list“

Þema listadaganna að þessu sinni er ,,leikandi list“ og má túlka það á ýmsa vegu.  Þemað tengist m.a. verkefni sem hófst sl. haust þegar myndmenntakennurum og leikskólakennurum í Garðabæ var boðið á námsstefnu um leikfangagerð og endurnýtingu efnis. 

Listsköpun í skólum

Mikil gróska er í alls konar listsköpun í skólum bæjarins, þ.e. í leikskólum, grunnskólum, Tónlistarskóla Garðabæjar og Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Jafnframt fer fram skapandi starf í félagsmiðstöðinni Garðalundi og fjöldi ungra Garðbæinga stundar listsköpun á eigin vegum í Garðabæ eða annars staðar. Á listadögunum er ætlunin að reyna draga fram og bjóða til sýningar og flutnings fjölbreytileg verk eftir mismunandi aldurshópa.  Alls konar listir verða sýnilegar þar má nefna tónlist, dans, myndlist, hönnun, leiklist, bókmenntir, ljósmyndun og margt fleira.  Leikskólar bæjarins verða með opið hús laugardaginn 24. apríl og elstu börn leikskóla og yngstu börn grunnskóla fara í sameiginlega skrúðgöngu þann 26. apríl.   Margar sýningar verða í gangi þessa daga má þar  nefna sýningar nemenda úr fatahönnun og myndlist í FG sem verða m.a. í gamla Hagkaupshúsinu.  Bókasafnið ætlar að vera með smásagnakeppni og leikfélagið Draumar hefur umsjón með skemmtilegri lokadagskrá laugardaginn 1. maí.


Á myndunum má sjá starfsmenn skóla undirbúa listsýningu á Garðatorgi þar sem leik- og grunnskólar halda samsýningu.