16. apr. 2010

Hreinsunarátakið hafið

Bæjarfulltrúar og umhverfisnefnd lögðu nemendum og starfsfólki Hofsstaðaskóla lið við upphaf hreinsunarátaksins Hreinsum til í nærumhverfinu í morgun.
  • Séð yfir Garðabæ

Bæjarfulltrúar og umhverfisnefnd lögðu nemendum og starfsfólki Hofsstaðaskóla lið við upphaf hreinsunarátaksins Hreinsum til í nærumhverfinu í morgun.

Hreinsunarátakið hefst í dag 16. apríl og stendur til 7. maí.  Átakinu var formlega hleypt af stokkunum kl. 10 í  morgun við Hofsstaðaskóla þegar nemendur í 2. og 6. bekk hófust handa við að hreinsa hluta Arnarneslækjar. Nemendur Hofsstaðaskóla munu svo halda starfinu áfram næstu daga og hreinsa lækinn alla leið niður að strönd.

Íbúar hvattir til að taka þátt

Íbúar, félög og aðrir hópar eru hvattir til að taka að sér tiltekin svæði í nærumhverfi sínu og hreinsa þau meðan hreinsunarátakið stendur yfir. Hóparnir geta sótt um styrk til bæjarins vegna hreinsunarstarfsins og t.d. nýtt hann til að fagna góðu verki með grillveislu eða á annan hátt. Starfsmenn bæjarins leggja hópunum lið með því að hirða upp poka og annað sem til fellur eftir ruslatínslu á þeim svæðum sem hóparnir taka að sér.

Lokahátíð

Lokahátíð hreinsunarátaksins verður haldin á Garðatorgi föstudaginn 7. maí kl. 16-18. Þá er gestum og gangandi boðið upp á rjúkandi vöfflur, kaffi og djús á torginu undir lifandi tónlist. Einnig eru veittar viðurkenningar til hópa sem hafa lagt mikið af mörkum til hreinsunar bæjarins.

20 hópar fengu styrk í fyrra

Í fyrra fengu alls 20 hópar styrk vegna hreinsunarstarfs í nærumhverfi sínu og hefur þeim fjölgað ár frá ári. Hóparnir eru t.d. nágrannar sem taka sig saman, íþróttafélög, nemendur og starfsfólk í stofnunum bæjarins og fleiri. Í fyrra fengu íbúar í Akrahverfi viðurkenningu fyrir sitt framlag auk nemenda og starfsfólks leikskólans Sunnuhvols.

Vorhreinsun 10.-14. maí

Vorhreinsun lóða í Garðabæ tekur við að hreinsunarátakinu loknu og verður dagana 10.-14. maí. Þá eru íbúar hvattir til að hreinsa lóðir sínar eftir veturinn. Starfsmenn bæjarins fara um bæinn þá daga og fjarlægja garðúrgang sem settur hefur verið út fyrir lóðamörk.

 

Frétt um upphaf hreinsunarátaksins á vef Hofsstaðaskóla.

Nánari upplýsingar um hreinsunarátak og vorhreinsun


Hreinsunarátak 2010

Vaskur hópur tilbúinn að hefja hreinsunarátakið 2010

Hreinsunarátak 2010

Unnið af kappi

Hreinsunarátak 2010

Nemendur úr Hofsstaðaskóla standa sig vel við hreinsun lækjarins

Hreinsunarátak 2010

Nokkrir nemendur úr Fjölbrautaskólanum í Garðabæ komu út og lögðu sitt af mörkum

Páll Hilmarsson, forseti bæjarstjórnar og Gunnar Einarsson bæjarstjóri niðursokknir í verkið.