15. apr. 2010

Nýju útivistarkorti dreift í hús

Nýtt útivistarkort af Garðabæ er komið út í vasabroti og verður því dreift í hús í Garðabæ á næstu dögum.
  • Séð yfir Garðabæ

Nýtt útivistarkort af Garðabæ er komið út í vasabroti og verður því dreift í hús í Garðabæ á næstu dögum.

Kortið tekur við af vasakortinu Göngu- og hlaupaleiðir í Garðabæ sem gefið var út árið 2004. Það kort hefur verið mjög vinsælt og er upplag þess uppurið.

Í nýja kortinu eru gefnar hugmyndir að 10 gönguleiðum innan bæjarins og 10 gönguleiðum í útmörkinni. Þetta eru sömu leiðirnar og voru á gamla kortinu en þær hafa verið endurskoðaðar og bættar. Gefin eru upp göngu- og hlaupalengd í tíma og lengd í metrum.

Myndir af áhugaverðum stöðum í bæjarlandinu prýða kortið og þar er að finna heiti og staðsetningu útilistaverka í bænum. 


Útivistarkortið er gefið út á vegum umhverfisnefndar, sem fékk Ísgraf ehf. til gerðar kortsins í samstarfi við nefndina. Tilgangurinn með útgáfunni er að auka þekkingu fólks á nærumhverfinu og hvetja til útivistar í bæjarlandinu.

 

Útivistarkortinu verður dreift inn á öll heimili í Garðabæ á næstu dögum. Það er einnig aðgengilegt í PDF-skrám hér á vefnum.