9. apr. 2010

Drög að íþrótta- og tómstundastefnu

Drög að íþrótta- og tómstundastefnu Garðabæjar verða lögð fram á fundi bæjarráðs Garðabæjar þriðjudag 13. apríl nk. Stefnu þessari er ætlað að treysta grunninn og móta framtíðarsýn í íþrótta- og tómstundamálum í Garðabæ. Með mótun heildstæðrar stefnu og framkvæmd hennar er þessi mikilvægi málaflokkur efldur enn frekar
  • Séð yfir Garðabæ

Drög að íþrótta- og tómstundastefnu Garðabæjar verða lögð fram á fundi bæjarráðs Garðabæjar þriðjudag 13. apríl nk.  

Stefnu þessari er ætlað að treysta grunninn og móta framtíðarsýn í íþrótta- og tómstundamálum í Garðabæ. Með mótun heildstæðrar stefnu og framkvæmd hennar er þessi mikilvægi málaflokkur efldur enn frekar með samvinnu við þau félög er starfa í bænum. Skýr stefna tryggir að allir sem starfa að íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfi stefni í sömu átt með það að markmiði að efla íþrótta- og tómstundalíf í Garðabæ og um leið er hinum frjálsu félögum gert kleift að sinna hlutverki sínu enn betur.

Myndaður var stýrihópur sem fékk það hlutverk að vinna og skipuleggja fyrstu skrefin í mótun stefnunnar. Fyrsta verkefni hópsins var að boða til opins íbúafundar, sem sérfræðingar frá Capacent stýrðu, í því skyni að fá fram hugmyndir, skoðanir og væntingar bæjarbúa og íþróttafélaga um framtíðarstefnu í íþrótta- og tómstundamálum.

Mótun stefnunnar er meðal annars byggð á þeim gögnum sem fengust á íbúafundinum og hugmyndum þeirra er starfa að íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfi í bænum. Einnig var stuðst við skýrslu starfshóps um samþættingu íþrótta og tómstunda en hópurinn fékk það verkefni að kanna hvernig mætti auka og bæta samþættingu grunnskóla, tónlistarskóla og íþrótta- og tómstundastarfs barna og unglinga í Garðabæ.

Leitað var til íþrótta- og tómstundafélaganna í bænum til að fá fram athugasemdir og ábendingar frá þeim. Jafnframt var stefnan send til annara nefnda bæjarins til umfjöllunar og skoðunar en stefna í íþrótta- og tómstundamálum þarf að samræmast við aðrar stefnur bæjarins.



Hér eru birt drög að stefnunni sem verður lögð fram í bæjarráði Garðabæjar þriðjudaginn 13. apríl nk. Drögin verða svo lögð fyrir bæjarstjórn Garðabæjar til samþykktar á fundi bæjarstjórnar 15. apríl nk.


Íþrótta- og tómstundastefna Garðabæjar - DRÖG apríl 2010