26. feb. 2010

Heilsan efld í Garðabæ

Efnt verður til heilsueflingardags í Garðabæ 27. febrúar, þar sem haldið verður áfram að huga að heilsunni eftir ágætan árangur Garðabæjar í lífshlaupinu
  • Séð yfir Garðabæ

Almenningsíþróttadeild Stjörnunnar og Garðabæ efna til heilsueflingardags í Garðabæ laugardaginn 27. febrúar kl. 10.30-14, í samstarfi við Birnu Guðmundsdóttur íþróttakennara og Írisi Rut Erlingsdóttur. Með deginum verður haldið áfram að huga að heilsunni eftir ágætis árangur Garðabæjar í lífshlaupinu.

Góður árangur í lífshlaupinu

Heilsueflingardagurinn kemur í kjölfar lífshlaupsins sem hefur staðið yfir undanfarnar vikur. Nokkrar af stofnunum Garðabæjar tóku virkan þátt í lifshlaupinu, bæði í vinnustaðakeppninni og í grunnskólakeppninni.

Besta árangur af stofnunum Garðabæjar náði Sjálandsskóli. Hann endaði í þriðja sæti yfir skóla með 150-399 nemendur í grunnskólakeppninni og í öðru sæti í keppni fyrirtækja með 30-69 starfsmenn í vinnustaðakeppninni en bæjarkskrifstofur Garðabæjar voru þar í 8. sæti. Það er viðeigandi að Sjálandsskóli skuli ná góðum árangri í Lífshlaupinu en setningarathöfn þess fór einmitt fram í skólanum 3. febrúar sl. eins og sagt var frá í frétt hér á vefnum.

Fjölbreytt dagskrá

Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá á heilsueflingardeginum. Í Ásgarði verða nokkrar íþróttagreinar kynntar og þar verður einnig hægt að fæ mælingu á ýmsum heilsufarsþáttum svo sem blóðþrýstingi, blóðsykri og kólesteróli. Í Garðalundi verða fyrirlestrar um sykursýki, áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma og um gildi hreyfingar.

Dagskráin er öllum opin og allir velkomnir.

Dagskrá Heilsueflingardagsins í Garðabæ 27. febrúar 2010.