10. feb. 2010

Opið skólaþing í Garðabæ

Á opnu skólaþingi sem haldið verður í Sjálandsskóla í Garðabæ fimmtudaginn 11. febrúar kl. 18-20 gefst öllum Garðbæingum tækifæri til að hafa áhrif á skólastefnu Garðabæjar.
  • Séð yfir Garðabæ

Á opnu skólaþingi sem haldið verður í Sjálandsskóla í Garðabæ fimmtudaginn 11. febrúar kl. 18-20 gefst öllum Garðbæingum tækifæri til að hafa áhrif á skólastefnu Garðabæjar.

Á þinginu verða kynntar niðurstöður úr hugarflæði nemenda, starfsfólks skóla og foreldra um gott skólastarf, sem fram fór fyrr í vetur. Einnig verður unnið í hópum þar sem haldið verður áfram að ræða um starf leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla og leitað svara við því hvað geri skólastarf gott og hvað megi bæta í skólastarfinu. Allir þátttakendur í þinginu geta starfað í hópunum og komið hugmyndum sínum og áherslum á framfæri. Skólaþingið er liður í vinnu við endurskoðun skólastefnu Garðabæjar. ´


Stýrihópi sem vinnur að endurskoðun skólastefnu Garðabæjar var falið að gæta þess að nemendur, starfsmenn skóla og foreldrar í Garðabæ fengju tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri. Nú þegar hafa verið haldin skólaþing í hverjum skóla þar sem leitað var álits nemenda og starfsfólks. Leitað var til foreldra með rafrænum hætti og tóku tæplega þúsund foreldrar þátt í hugarflæði á þann hátt.


Á skólaþinginu sem haldið verður á fimmtudaginn verða niðurstöður þessarar vinnu kynntar, undir yfirskriftinni Raddir nemenda, starfsfólks skóla og foreldra. Að því loknu verður hópavinna þar sem þátttakendur geta fjallað um starf í leikskólum, grunnskólum eða Tónlistarskóla Garðabæjar. Skólaþinginu lýkur á að niðurstaða hópavinnunnar verður kynnt.


Heildstæð stefna fyrir skóla í Garðabæ, þ.e. leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla var fyrst samþykkt árið 2002. Hún var endurskoðuð árið 2006 og sl. haust samþykkti bæjarstjórn að stefnan skyldi endurskoðuð að nýju og skipaði stýrihóp til þess verkefnis. Í honum sitja bæjarfulltrúarnar Páll Hilmarsson, sem einnig er formaður skólanefndar grunnskóla og Hjördís Eva Þórðardóttir, Ásdís Olsen sem á sæti í skólanefnd grunnskóla, Lúðvík Örn Steinarsson, formaður leikskólanefndar og Stefán Veturliðason, formaður skólanefndar Tónlistarskóla Garðabæjar. Með stýrihópnum vinna forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs, leik- og grunnskólafulltrúar Garðabæjar ásamt skólastjóra Tónlistarskóla Garðabæjar.

 

Frá upphafi hefur verið lögð á það áhersla í skólastefnu Garðabæjar að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda með fjölbreyttu starfi og áherslum. Á skólaþinginu gefst öllum áhugasömum tækifæri til að hafa áhrif á skólastefnu bæjarins.

 

Boðið verður upp á barnagæslu og veitingar meðan á skólaþinginu stendur.

Auglýsing um Skólaþingið.