21. jan. 2010

Lýðræðið eflt í Garðabæ

Garðabær verður fyrst íslenskra sveitarfélaga til að móta sérstaka lýðræðisstefnu. Mörg sveitarfélög á Norðurlöndunum hafa þegar mótað slíka stefnu með það að markmiði að efla hið staðbundna lýðræði.
  • Séð yfir Garðabæ

Garðabær verður fyrst íslenskra sveitarfélaga til að móta sérstaka lýðræðisstefnu. Mörg sveitarfélög á Norðurlöndunum hafa þegar mótað slíka stefnu með það að markmiði að efla hið staðbundna lýðræði. Þetta er meðal þess sem fram kom á fyrsta fundi stýrihóps um mótun lýðræðisstefnu Garðabæjar sem haldinn var í Garðabergi í gær.


Stýrihópurinn fékk góða gesti á sinn fyrsta fund. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði flutti erindi á fundinum þar sem hann fjallaði um lýðræðið, framkvæmd þess og þær áskoranir sem menn standa frammi fyrir vilji þeir efla það. Gunnar Helgi lýsti sérstakri ánægju með það framtak Garðabæjar að vera fyrst sveitarfélaga á Íslandi að taka þessari áskorun, með ákvörðun um að móta sérstaka lýðræðisstefnu.


Gunnar Helgi ræddi ýmsar spurningar sem geta kviknað þegar rætt er um lýðræði og nefndi nokkrar hugmyndir að leiðum til að stuðla að eflingu þess á sveitarstjórnarstigi. Þá nefndi hann til hvaða þátta menn hefðu horft við mótun lýðræðisstefnu í öðrum löndum. Stefán Konráðsson, formaður stýrihópsins segir að erindi Gunnars Helga hafi verið mjög gagnlegt og að það verði stýrihópnum mikill og góður innblástur í þeirri vinnu sem framundan er.


Anna Guðrún Björnsdóttir, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga var einnig gestur fundarins. Líkt og Gunnar Helgi fagnaði Anna þeirri ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar að hefja vinnu við mótun lýðræðisstefnu og sagðist vilja líta á vinnu Garðabæjar sem brautryðjendaverkefni í því samhengi sem gæti öðrum sveitarfélögum fyrirmynd.


Anna Guðrún sagði einnig frá námskeiðum sem danska sveitarfélagasambandið hefur haldið fyrir sín sveitarfélög um mótun lýðræðisstefnu. Á fundinum kom fram áhugi á að skoða hvort grundvölllur væri fyrir því að fá ráðgjafa á þess vegum til að halda námskeið á Íslandi.


Í stýrihópnum um mótun lýðræðisstefnu sitja bæjarfulltrúarnir Stefán Snær Konráðsson og Steinþór Einarsson, Ragný Þóra Guðjohnsen varabæjarfulltrúi, Helgi Grímsson skólastjóri og Guðjón E. Friðriksson bæjarritari. Öllum bæjarfulltrúum og forstöðumönnum hjá Garðabæ var boðið á fyrsta fund hópsins og kom þar skýrt fram að mikill áhugi er á verkefninu í bænum. Stefnt er að því að hópurinn skili drögum að lýðræðisstefnu í apríl.

Frá fyrsta fundi um mótun lýðræðisstefnu 21. jan. 2010

Hópurinn sem sat fyrsta fund stýrihóps um mótun lýðræðisstefnu. Mikill áhugi er á verkefninu meðal stjórnenda bæjarins.