13. jan. 2010

Fleiri bækur lánaðar

Á árinu 2009 jukust hefðbundin útlán í Bókasafni Garðabæjar um rúmlega 12%.
  • Séð yfir Garðabæ

Á árinu 2009 jukust hefðbundin útlán á Bókasafni Garðabæjar um rúmlega 12%. Árið áður (2008 ) höfðu þau aukist um 6%.

Óhefðbundin útlán þ.e. rafræn útlán verða líka sífellt stærri hluti af starfsemi bókasafna á landinu öllu. Má í því sambandi nefna “heimsóknir” á heimasíður safnanna, bókasafnskerfi á Netinu (gegnir.is) og aðgengi og notkun á miðlæga gagnagrunninum hvar.is, sem flest bókasöfn landsins eru nú aðilar að.



Hópar barna úr grunn- og leikskólum bæjarins komu reglulega í heimsókn í bókasafnið á nýliðnu ári, til að taka þátt í sögustundum og safnfræðslu eða einhverjum öðrum viðburðum á vegum safnsins. Þátttaka í sumarlestri var líka með mesta móti en 155 börn á aldrinum 5-13 ára skráðu sig í sumarlestur . Alls skiluðu 67 börn inn lestrardagbókum og lásu samanlagt 121.000 blaðsíður sem er mikil aukning frá árinu áður en þá voru lesnar samanlagt 65.000 bls. Þá kemur fjöldi fólk á öllum aldri daglega í safnið til að lesa dagblöð og tímarit eða fara í tölvur.

 

Oddný Björgvinsdóttir, forstöðumaður Bóksafnsins segir í frétt frá Bókasafninu:  Útlánaaukning í bókasöfnum er þekkt fyrirbrigði á krepputímum. Þegar atvinnuleysi eykst hefur fólk meiri tíma og minna fé milli handa og notfærir sér því í auknu mæli þjónustu almenningsbókasafna. Bókasöfn eru líka meðal fárra staða þar sem hægt er að nálgast afþreyingu án þess að greiða aðgangseyri."

 

Veruleg aukning hefur orðið í útlánum í Bókasafni Garðabæjar síðastliðin 10 ár eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.


 

Þróun útlána hjá Bókasafni Garðabæjar