12. jan. 2010

Hundar eiga að vera í taumi

Hundaeigendur eru minntir á að lausaganga hunda er bönnuð í þéttbýli. Borist hafa ábendingar um að nokkuð sé um að menn sleppi hundum sínum lausum á göngu sem getur valdið öðrum vegfarendum, ekki síst börnum, óþægindum og hræðslu.
  • Séð yfir Garðabæ

Hundaeigendur eru minntir á að lausaganga hunda er bönnuð í þéttbýli. Borist hafa ábendingar um að nokkuð sé um að menn sleppi hundum sínum lausum á göngu sem getur valdið öðrum vegfarendum, ekki síst börnum, óþægindum og hræðslu.

Margrét Harðardóttir, skólastjóri í Hofsstaðaskóla segir foreldra hafa haft samband við sig vegna þess að lausir hundar hafi valdið börnum á leið í skólann ótta. „T.d. hefur mér verið tjáð að lausaganga hunda meðfram læknum sem liggur í gegnum Akrahverfið og mörg börn ganga eftir á leið í Hofsstaðaskóla, sé nokkuð algeng. Þetta hefur valdið börnum hræðslu og tafið þau á leið í skólann enda getur það verið ógnvekjandi fyrir barn sem ekki er hátt í loftinu að sjá stóran hund koma á móti sér í myrkrinu,“ segir Margrét.

Í þessu samhengi er rétt að árétta að hundar eiga í öllum tilfellum að vera í í taumi á svæðum þar sem umferð ökutækja eða gangandi fólks er almenn, eins og fram kemur í samþykkt um hundahald. Ekki er nóg að hundar séu í svokölluðu augnbandi heldur eiga þeir skilyrðislaust að vera í taumi. Lausaganga hunda í þéttbýlinu er aðeins leyfileg á svæðum sem eru sérstaklega merkt þannig.